Dortmund vill ekki Sancho - Liverpool hefur áhuga á Rodrygo ef Salah fer - Messi gæti misst af úrslitaleik
banner
   fös 02. júní 2023 23:15
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Stöð 2 Sport 
„Hefði átt að punda á sína menn frekar en dómarann“
watermark Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld.
Mynd:
„Það er hatur milli þessara liða með mikilli virðingu. Þess vegna verða þessir leikir frábær skemmtun. Hvorugur þjálfaranna höfðu stjórn á sér í viðtölum eftir leik," sagði Baldur Sigurðsson, sérfræðingur á Stöð 2 Sport, í Stúkunni í kvöld.

Þar var rætt um lætin sem urðu í kjölfarið á 2-2 jafntefli í stórleik Breiðabliks og Víkings. Eftir leik sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, að Ívar Orri Kristjánsson dómari hefði verið „ömurlegur".

Breiðablik skoraði jöfnunarmarkið þegar komið var 40 sekúndum yfir uppgefinn uppbótartíma.

Lestu um leikinn: Breiðablik 2 -  2 Víkingur R.

„Ég hefði viljað sjá Arnar punda á sína menn, þetta er bara algjört klúður hjá þeim. Að missa þetta frá sér. Hvernig menn standa í seinna markinu, þetta er mjög ólíkt Víkingunum að missa þetta niður. Þeir standa bara linir og Blikarnir nýttu sér það," sagði Baldur.

„Maður hefði viljað sjá Arnar punda á sína leikmenn í stað þess að fara í dómarann."

„Ég held að þegar hann nær að róa sig og hugsar út í hvað hann sagði held ég að hann verði ekki sáttur við sjálfan sig. Að vaða í Ívar (dómara), það var þannig lagað ekkert út á Ívar að setja í þessum leik."

Atli Viðar Björnsson telur að pirringur Arnars hafi í raun helst stafað að því að leikmenn hans hafi misst niður forystuna. Hann telur að sá tími sem hafi farið yfir uppbótartímann hafi verið eðlilegur.

„Pirringurinn virtist aðallega snúa að uppbótartímanum. Jöfnunarmark Blika kemur þegar 40 sekúndur eru komnar fram yfir, það er ekkert út á það að setja. Breiðablik skoraði hitt markið í uppbótartímanum og þá bætist sirka hálf mínúta við ef ég skil reglurnar. Pirringurinn er út í niðurstöðuna, hvernig þeir köstuðu leiknum frá sér," sagði Atli í þættinum.
Athugasemdir
banner