City og Real með augu á Olise - Bentancur að framlengja við Tottenham - Saka fær launahækkun
banner
   fim 02. október 2025 10:34
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Dóri Árna: Það er auðvitað mjög merkilegt og þekkist hvergi
'Ég reyndi að útskýra að flestir væru ekki bara Íslendingar, heldur uppaldir hjá félaginu frá fimm ára aldri.'
'Ég reyndi að útskýra að flestir væru ekki bara Íslendingar, heldur uppaldir hjá félaginu frá fimm ára aldri.'
Mynd: EPA
Aftur mættir í Evrópu.
Aftur mættir í Evrópu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við setjum sjálfir á okkur smá pressu, en hún þarf ekki að vera slæm tilfinning, þýðir bara að þér sé ekki sama og virkilega ætlar þér að gera einhverja hluti.'
'Við setjum sjálfir á okkur smá pressu, en hún þarf ekki að vera slæm tilfinning, þýðir bara að þér sé ekki sama og virkilega ætlar þér að gera einhverja hluti.'
Mynd: EPA
Anton Logi sneri til baka gegn FH á laugardag. Hann er einn af uppöldu leikmönnum Breiðabliks.
Anton Logi sneri til baka gegn FH á laugardag. Hann er einn af uppöldu leikmönnum Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Af æfingu í gær.
Af æfingu í gær.
Mynd: EPA
Þorleifur er mættur aftur eftir löng og erfið meiðsli. Hann er einn af uppöldu leikmönnum Breiðabliks.
Þorleifur er mættur aftur eftir löng og erfið meiðsli. Hann er einn af uppöldu leikmönnum Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikvangur sem myndi sóma sér vel í Laugardal.
Leikvangur sem myndi sóma sér vel í Laugardal.
Mynd: EPA
Skemmtilegur regnbogi.
Skemmtilegur regnbogi.
Mynd: EPA
Sigrinum gegn Besiktas fagnað.
Sigrinum gegn Besiktas fagnað.
Mynd: EPA
Breiðablik, sem varð Íslandsmeistari 2024, mætir í dag Lausanne í Sambandsdeildinni. Um fyrsta leik af sex er að ræða hjá Breiðabliki í keppninni sem liðið vann sér inn þátttökurétt í með sigrum í tveimur forkeppniseinvígum í sumar.

Leikurinn hefst klukkan 16:45 að íslenskum tíma og fer fram á Stade de la Tuiliere sem tekur um 12,500 manns í sæti.

Lausenne, eða FC Lausanne-Sport, endaði í 5. sæti svissnesku deildarinnar á síðasta tímabili. Liðið vann þrjú einvígi í forkeppni Sambandsdeildarinnar í sumar, fyrst Vardar frá Norður-Makedóníu (6-2), næst Astana frá Kasakstan (5-1) og loks óvæntan sigur á tyrkenska stórliðinu Besiktas (2-1) í umspilinu.

Fótbolti.net ræddi við Halldór Árnason, þjálfara Breiðabliks, í aðdraganda leiksins.

Lestu um leikinn: Lausanne 0 -  0 Breiðablik

„Mér líst mjög vel á þetta, skemmtilegur staður til að byrja þessa keppni, hörkulið, mjög flottur leikvangur, flottar aðstæður og við erum mjög spenntir að taka þátt í annað skiptið í Sambandsdeildinni," segir Dóri.

Myndi sóma sér vel í Laugardal
Breiðablik komst árið 2023 fyrst íslenskra karlaliða í riðlakeppni í Evrópu en ári seinna varð Sambandsdeildin að deildarkeppni og voru Víkingar meðal þátttökuliða í fyrra. Þetta er því í fyrsta skiptið sem Breiðablik fer í deildarkeppni í Evrópu.

„Okkur líður vel hérna, erum á mjög fínu hóteli í sveitinni fyrir utan Vevey, það fer virkilega vel um okkur hér, við æfðum á keppnisvellinum í dag, mjög flottur völlur sem var vígður 2020, gervigrasvöllur með stúku allan hringinn, ekki ósvipaður völlur og maður væri til í að sjá í Laugardalnum einn daginn. Það er mjög brött stúka og það getur myndast mjög góð stemning á vellinum, skemmtilegur og flottur völlur. Það er alvöru vettvangur fyrir svona leik."

Þokkalega hlekkjalausir
Illa hefur gengið í Bestu deildinni hjá Blikum, langt er frá síðasta sigri og vonin um að spila í Evrópu aftur á næsta ári er veik. Hvernig er að setja Bestu deildina til hliðar og fara á annað svið?

„Það er bara gott, þetta er allt annað svið, Lausanne er lið sem er auðvitað allt öðruvísi en andstæðingar okkar á Íslandi, öðruvísi aðstæður og við komum kannski inn í leikinn á annan hátt en á Íslandi, út á við þokkalega hlekkjalausir. Menn eru bara mjög spenntir að spila fótbolta á þessu sviði."

Ná Blikar að ýta áhyggjunum af Bestu deildinni alveg til hliðar?

„Það held ég, menn hafa alltaf verið góðir í því að einbeita sér að næsta verkefni. Við tökum það sem við höfum gert vel og illa í síðustu leikjum í deildinni og reynum að laga það og bæta. Það er mikilvægt að staldra ekki of lengi við eitthvað sem er liðið, heldur einbeita sér að næsta verkefni."

Hver leikur í Evrópu er stærri en einn stakur deildarleikur. Geta menn notið gulrótarinnar sem hefur verið fyrir framan þá á tímabilinu?

„Hluti af teyminu og stór hluti leikmannahópsins upplifði þetta fyrir tveimur árum. Við nutum þess þá að spila, spiluðum fjóra af sex leikjum þá á móti ævintýralega sterkum liðum sem var brett, en við nutum þess klárlega og áttum virkilega góða kafla. Eftir það var markið sett að komast aftur á þetta svið og næsta skref er að fara og vinna leiki og sækja úrslit sem okkur tókst ekki að gera síðast."

„Við setjum sjálfir á okkur smá pressu, en hún þarf ekki að vera slæm tilfinning, þýðir bara að þér sé ekki sama og virkilega ætlar þér að gera einhverja hluti. Við komum alls ekki inn í þetta eins og þetta skipti ekki máli, en ég held að menn munu virkilega njóta þess að spila á þessu sviði. Þú finnur í kringum þessa leiki hvernig umgjörðin í kringum þetta er, þetta er á allt öðru stigi en maður er vanur heima, og menn finna alveg hversu stórt þetta er. Ég held við séum tilbúnir að njóta þess."


Allt annað en sigur yrði högg fyrir heimamenn
Lausanne er mun stærra félag en Breiðablik og veðbankar telja svissneska liðið sigurstranglegra. En hvernig metur Dóri líkurnar á góðum úrslitum í leiknum?

„Ég tel okkur eiga möguleika, á frábærum degi varnar- og sóknalega getum við náð í góð úrslit hér, en þetta er auðvitað frábært lið, virkilega gott og þeir líta eflaust á sig sem sigurstranglegri aðilann og allt annað en sigur fyrir þá yrði mikið högg. Við erum brattir og sjáum möguleika í stöðunni fyrir okkur. Við erum mættir til að taka þátt, gera okkur gildandi. Við mætum í alla leiki og höfum trú á því að við getum náð úrslitum."

Hvernig er hljóðið í heimamönnum, líta þeir á þetta sem skyldusigur?

„Ég hef ekki orðið var við það, en ég held það sé eðlilegt að liði í svissnesku deildinni sé kannski spáð af mörgum sigri á móti íslensku liði. Það gefur þér ekki neitt nema frammistaðan fylgi. Við erum bjartsýnir á að ef við hittum á taktinn okkar og erum allir upp á okkar besta varnar- og sóknarlega, þá eigum við góðan möguleika."

Tvær endurkomur
Þeir Aron Bjarnason, Davíð Ingvarsson og Andri Rafn Yeoman geta ekki spilað leikinn, en aðrir eru klárir í slaginn. Þeir Anton Logi Lúðvíksson og Þorleifur Úlfarsson sneru aftur eftir meiðsli gegn FH um helgina.

„Anton Logi spilaði næstum hálftíma á móti FH sem var frábært, Þorleifur kom líka inn á. Þetta var fyrsti leikur Antons í rúma tvo mánuði og Þorleifur spilaði sinn fyrsta leik í næstum 600 daga, sem er mjög jákvætt."

„Eins og í allt sumar eru einhverjir frá, en við erum með stóran og góðan hóp og dveljum ekkert meira við það. Við treystum hópnum og þeim leikmönnum sem við höfum, þó svo að það sé auðvitað söknuður af þeim sem eru ekki klárir."


Merkilegt að vera með marga uppalda
Dóri og fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson sátu fyrir svörum á fréttamannafundi í gær. Fenguð þið einhverjar skemmtilegar spurningar?

„Við fórum kannski ekki á mikla dýpt, það var forvitni um Breiðablik, þeim fannst merkilegt að það voru nánast bara íslenskir leikmenn í liðinu og ég reyndi að útskýra að flestir væru ekki bara Íslendingar, heldur uppaldir hjá félaginu frá fimm ára aldri. Mönnum fannst það merkilegt, sem það auðvitað er. Við höfum verið að spila með 6-7 uppalda Blika í byrjunarliðinu í Evrópuleikjunum hingað til, sem þekkist hvergi. Það er eitthvað sem við munum aldrei gleyma og taka mikið stolt í. Þessir fundir eru alltaf skemmtilegir."

Eini erlendi leikmaðurinn hjá Breiðabliki er Daninn Tobias Thomsen.

Spila tígulmiðju og eru án lykilmanns
En hvað vita Blikar um andstæðingana?

„Þetta er lið sem kannski óvænt fór alla leið í deildarkeppnina, þeir slógu út Besiktas og réðu örlögum Ole Gunnar Solskjær þar í umspilinu. Það virðist vera mikil leikmannavelta hjá félaginu, margir nýir leikmenn, nokkrir lánsmenn, mjög ungt lið, margir ungir leikmenn. Það er mikið af leikmönnum sem stoppa ekki lengi við, en það er samt ákveðinn kjarni líka sem hefur verið í einhver ár. Þjálfarinn tók við í sumar og margt nýtt í gangi."

„Þetta eru mjög miklir íþróttamenn og vilja spila hratt upp völlinn, vilja spila opnan leik, opnir fyrir því að fara langt og hlaupa. Þetta er virkilega gott fótboltalið og nokkrir mjög áhugaverðir leikmenn sem eru með skemmtilegan bakgrunn, leikmenn sem maður sér að eru að fara taka skrefið enn hærra. Þetta er lið sem er ekki í Evrópukeppni á hverju ári, svo þetta er líka spennandi fyrir þá."

„Þeir spila 4-4-2 með tígulmiðju í átta af níu leikjum á þessu tímabili, mjög symmetríska tígulmiðju og hafa haldið sig við hana. Þeir breyttu aðeins til í síðasta leik, og við erum búnir undir hvað sem er. Einn besti leikmaðurinn þeirra (Jamie Roche) , sem hefur spilað aftast á miðjunni, meiddist reyndar í þar síðasta leik. Það er sænskur strákur sem spilaði með okkar mönnum, Óla Val og Aroni Bjarnasyni hjá Sirius í Svíþjóð, hann er virkilega góður leikmaður sem á eftir að ná langt - örvfættur miðjumaður. Þeir kannski þurfa aðeins að breyta til eftir að hafa misst hann út,"
segir Dóri.
Athugasemdir
banner
banner