Sancho, Sesko, Mac Allister, Ten Hag, Raya og fleiri góðir koma við sögu
   fim 03. mars 2022 23:42
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Ef Guð lofar fáum við þrjá leikmenn inn í viðbót"
Lengjudeildin
Mynd: Fjölnir
Rasmus átti gott tímabil með Fjölni árið 2020, þá var hann að koma til baka eftir meiðsli.
Rasmus átti gott tímabil með Fjölni árið 2020, þá var hann að koma til baka eftir meiðsli.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Hilmir Rafn er hjá Venezia á Ítalíu
Hilmir Rafn er hjá Venezia á Ítalíu
Mynd: Venezia
Lúkas Logi er hjá Empoli á Ítalíu
Lúkas Logi er hjá Empoli á Ítalíu
Mynd: Empoli
Dofri Snorrason er í þjálfarateymi 2. flokks.
Dofri Snorrason er í þjálfarateymi 2. flokks.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Þórir Karlsson er þjálfari 2. flokks.
Þórir Karlsson er þjálfari 2. flokks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úlfur Arnar Jökulsson, þjálfari Fjölnis, ræddi við Fótbolta.net í dag. Farið var yfir sviðið með Úlfi, leikmannamálin og markmið sumarsins.

Viðtal við Úlf í október:
Úlfur stoltur: Verið draumastarfið síðan ég byrjaði að þjálfa

Vilja búa til sterkan grunn
Hvað er það sem Fjölnir ætlar að gera í sumar? „Svarið er það sama og þegar við töluðum saman síðast. Við erum að reyna búa til lið sem getur farið upp, og haldið sér uppi á, á sem stystum tíma. Við öndum þannig séð rólega, okkur langar að ná þessu markmiði sem fljótt og hægt er en lærum ekki að vera með neinar skyndilausnir," sagði Úlfur.

„Síðast [þegar liðið fór upp] þurfti að leysa rosalega stór skörð. Rasmus Christiansen var lánsmaður hjá okkur tímabilið áður og var þá bestur í Lengjudeildinni. Það voru skörð sem þurfti að fylla sem tókst ekki að fylla. Núna erum við að reyna finna leikmenn sem geta hjálpað okkur að komast upp úr Lengjudeildinni en geta svo haldið áfram og hjálpað okkur að halda okkur uppi í úrvalsdeildinni. Við viljum búa til sterkan grunn."

„Ef Guð lofar þá fáum við þrjá leikmenn inn í viðbót"
Hvernig gengur þessi leit að leikmönnum, er hópurinn klár?

„Nei, hann er ekki klár. Það er búið að vera erfitt að finna menn sem passa bæði inn í leikstílinn og leikmannahópinn aldurslega og karakterslega séð. Við erum búnir að reyna vanda valið vel og erum ekki búnir að vera panikka og taka hvern sem er. Við höfðum lítið gert að undanförnu áður en svo Hákon Ingi og Arnar Númi komu til okkar."

„Ef Guð lofar þá fáum við þrjá leikmenn inn í viðbót. Þá tel ég að við séum orðnir með nokkuð sterkan hóp."


Yrði að vera leikmaður sem myndi bæta liðið mikið
Gætuð þið þurft að horfa út fyrir landsteinana með þessa þrjá leikmenn?

„Það gæti alveg verið, við erum opnir fyrir öllu, erum bara að skoða allt. Þetta er dálítið erfiður markaður innanlands og sérstaklega ef maður er að leita að ákveðnum týpum. Ef rétti maðurinn er í boði erlendis þá gæti það alveg verið raunin ef það gengur allt saman upp. Það væri samt stór ákvörðun að taka leikmenn erlendis frá, það er náttúrulega svolítið umstang fyrir félög að græja íbúð og allskonar."

„Við viljum vanda okkur vel að það yrði þá leikmaður sem kæmi og myndi bæta liðið okkar mikið. Við erum með svo mikið af ungum og efnilegum strákum sem við viljum frekar brýna og styrkja í rauninni liðið inn á við með því að spila á þeim."


Vonar að þeir verði keyptir
Hvernig meturu stöðuna á strákunum á Ítalíu; þeim Hilmi Rafni Mikaelssyni og Lúkasi Loga Heimissyni. Eru þeir að fara spila með ykkur í sumar?

„Þeir spila annað hvort með okkur eða verða áfram á Ítalíu. Ég hef ekki hugmynd hvort það verður akkúrat núna en það ætti nú að skýrast á næstu mánuðum. Það er dálítið óþægilegt fyrir okkur að vita þetta ekki."

„Á annan veginn þá held ég rosalega með því að þeir standi sig rosalega vel og verði keyptir. Ef þeir verða keyptir þá hljóta þeir að vera standa sig vel og menn séu ánægðir með þá. Ég vona innilega fyrir þeirra hönd að það gerist en ef það klikkar þá væri gott að fá annan hvorn þeirra eða báða inn í hópinn. Þeir kæmu til með að styrkja sóknarleikinn okkar."


Lúkas Logi er fæddur árið 2003 og er á láni hjá Empoli. Hilmir Rafn er fæddur árið 2004 og er á láni hjá Venezia. Ítölsku félögin hafa forkaupsrétt á leikmönnunum.

Skóli að spila við Blikana
Fjölnir mætti Breiðabliki á þriðjudag. Leikurinn endaði 4-2 fyrir Breiðabliki, hvernig meturu þann leik?

„Við þjálfararnir vorum heilt yfir ánægðir með frammistöðuna og með þá hluti sem við vorum að vinna í í leiknum. Við vorum svolítið fúlir yfir því að bæði jöfnunarmörk Breiðabliks hafi fengið að standa. Þau eru bæði ólögleg, fyrra markið kom eftir sendingu til baka frá Mikkel Qvist sem markvörðurinn tók upp með höndum. Engin óbein aukaspyrna og beint í kjölfarið skora þeir. Svo er brotið á Sigurpáli Melberg þegar þeir skora 2-2 markið."

„Við rýnum aðallega í frammistöðuna í þessum leikjum, erum ekkert að missa okkur yfir hvernig leikirnir fara. Það sem við ætluðum okkur að gera í leiknum gekk oft á tíðum mjög vel. Við vildum bera okkur saman við þá í ákveðnum atriðum. Blikarnir eru mjög gott lið, það er skóli fyrir okkur að spila við þá og við fengum helling út úr þessum leik."


Fórnuðu í raun Íslandsmeistaratitlinum í 2. flokki
Er sama samstarf milli Fjölnis og Vængja Júpíters og hefur verið undanfarin ár?

„Þetta er sama samstarf og hefur verið fyrir utan það að við erum komnir með stærri kjarna af fullorðnum strákum í Vængina. Í fyrra voru að mesta lagi fjórir sem voru á meistaraflokks aldri og restin var bara 2. flokkur."

„Þetta var rosalega mikið álag fyrir strákana í lok sumars í fyrra. Við þannig séð fórnum Íslandsmeistaratitlinum í 2. flokki til þess að láta reyna á úrslitakeppnina í 4. deildinni. Okkur fannst mikilvægara að ná að koma Vængjunum upp en ætluðum að ná að gera bæði. Við náðum í fyrra líka að koma A2 liðinu okkur í B-deild í 2. flokki. Þetta er orðið svolítið gott „setup" fyrir strákana, mikið af góðum verkefnum."


Vængirnir verða í 3. deild í sumar.

Þórir stígur inn í hlutverk Helga - Dofri í teyminu
Helgi Sigurðsson var ráðinn 2. flokks hjá Fjölni undir lok síðasta árs en var svo ráðinn aðstoðarþjálfari Vals þegar Srdjan Tufegdzic var fenginn til Svíþjóðar frá Val. Hver tók við stöðu Helga hjá Fjölni?

„Þórir Karlsson steig upp, var inn í teyminu hjá mér í 2. flokki í fyrra, hann hélt áfram í teyminum með Helga og eftir að Helgi fór þá steig Þórir upp og tók við flokknum. Dofri Snorrason, leikmaður meistaraflokks, er kominn inn í 2. flokks teymið líka. Þannig að það er ágætis reynsla í teyminu. Þórir þekkir hugmyndafræði mína inn og út og er flottur í þetta starf. Það verður mikið samstarf okkar á milli," sagði Úlfur að lokum.

Komnir:
Arnar Númi Gíslason frá Breiðabliki (á láni)
Guðmundur Þór Júlíusson frá HK
Hákon Ingi Jónsson frá ÍA

Farnir:
Alexander Freyr Sindrason í Hauka (var á láni)
Arnór Breki Ásþórsson í Fylki
Eysteinn Þorri Björgvinsson í Hauka
Helgi Snær Agnarsson í ÍR
Hilmir Rafn Mikaelsson til Ítalíu (á láni)
Jóhann Árni Gunnarsson í Stjörnuna
Kristófer Jacobson Reyes í Kórdrengi
Lúkas Logi Heimisson til Ítalíu (á láni)
Michael Bakare til Skotlands
Ragnar Leóssón
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner