Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
   þri 03. maí 2022 16:30
Fótbolti.net
11. sæti í spá Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina: KV
Lengjudeildin
Mynd: Hilmar Þór
Öðru sætinu fagnað síðasta haust.
Öðru sætinu fagnað síðasta haust.
Mynd: Hilmar Þór
Ingó Sig
Ingó Sig
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Björn Axel er kominn frá Gróttu
Björn Axel er kominn frá Gróttu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Sex aðilar spáðu í spilin fyrir sumarið og fengu liðin stig frá 1-12 eftir því hvar þeim var spáð. Efsta sætið hjá hverjum aðila fékk tólf stig og svo koll af kolli.

Spáin:
11. KV, 13 stig
12. Þróttur Vogum, 6 stig

Um liðið: KV er komið aftur í næstefstu deild eftir að hafa fallið úr deildinni 2014. KV endaði stigi fyrir ofan Völsung í fyrra og með betri markatölu. 41 stig náði liðið í og komu 25 af þeim á heimavelli og 22 í seinni umferðinni. KV er mikið til byggt upp á ungum KR-ingum en á milli eru meiri reynsluboltar sem gera blönduna skemmtilega.

Þjálfarinn: Sigurvin Ólafsson (1976) tók við KV tímabilið 2018 og hefur stýrt skútunni síðan. Hann er einnig aðstoðarþjálfari meistaraflokks KR. Venni var valinn þjálfari tímabilsins í 2. deild í fyrra. KV var spáð 7. sætinu í 2. deild á síðasta tímabili.

Álit séfræðings
Rafn Markús og Úlfur Blandon eru sérfræðingar Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina í ár. Rafn Markús gefur sitt álit á KV.

„Það verður fróðlegt að sjá hvernig KV kemur inn í deildina eftir að hafa komið upp úr 2. deildinni í fyrra. Mér finnst KR hafa gert vel með tengingunni við KV sem er að nýtast Vesturbæingum vel. Mikil samvinna er milli liðanna þar sem þjáfarateymi félagana í m.fl. og 2. flokki eru skipuð sömu mönnum. KV er með leikmenn sem hafa spilað lengi saman, blöndu af yngri eldri leikmönnum sem þekkja vel áherslur Sigurvins. Ég hef trú á að það geti verið erfitt fyrir mörg lið að mæta á heimavöll KV þar sem getur skapast skemmtileg stemning."

„Hópurinn er nokkuð sterkur, liðið spilar oftast 4-3-3 eins og það hefur gert. Mikilvægt er fyrir KV að halda í gildin sín en á sama tíma þurfa þeir að vera meðvitaðir um að passa upp á varnarleikinn. Það eru lið fyrir ofan KV í spánni sem mögulega geta dottið neðar og því er möguleiki fyrir KV að halda sér uppi. Þeir hafa verið að ná í góð úrslit gegn liðum í Lengjudeildinnideild í vetur.Liðið byrjar á erfiðum leikjum, geta auðveldlega verið án stig eftir þrjá leiki og í kjölfarið er það nágrannaslagur við Gróttu."

„Mér finnst þetta lið sem getur stolið sigrum út um allt."


Lykilmenn: Einar Már Þórisson, Ingólfur Sigurðsson og Björn Axel Guðjónsson.

Fylgist með: Grímur Ingi Jakobsson
Það verður gaman að sjá hvernig Grímur Ingi kemur inn í Lengjudeildina. Þrátt fyrir að vera fæddur árið 2003 þá spilaði hann 21 leik og skoraði 5 mörk fyrir KV sem lánsmaður frá KR. Hann er uppalinn í Gróttu og lék 3 leiki í efstu deild sumarið 2020. Hann á tíu unglingalandsleiki að baki með U17 og U16.

Komnir:
Árni Þór Jakobsson frá Þrótti R.
Björn Axel Guðjónsson frá Gróttu
Einar Tómas Sveinbjarnarson frá Kríu
Hrafn Tómasson frá KR (á láni)
Hreinn Ingi Örnólfsson frá Þrótti R.
Oddur Ingi Bjarnason frá KR (á láni)
Róbert Vattnes frá Leikni R. (á láni)
Rúrik Gunnarsson frá KR (á láni)
Sigurpáll Sören Ingólfsson frá KR (á láni)
Stefán Hallgrímsson frá Mídasi

Farnir:
Nikola Dejan Djuric í Þrótt Vogum
Patryk Hryniewicki í Leikni R. (var á láni)

Fyrstu leikir KV:
5. maí Fylkir á útivelli
12. maí HK á heimavelli
20. maí Kórdrengir á útivelli

Spámenn: Elvar Geir, Guðmundur Aðalsteinn, Rafn Markús, Sæbjörn Steinke, Tómas Þór og Úlfur Blandon.
Athugasemdir
banner
banner
banner