Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   þri 03. desember 2019 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Segja Zlatan fara til Milan í janúar
Mynd: Getty Images
Zlatan Ibrahimovic verður fáanlegur á frjálsri sölu í janúar eftir tvö frábær tímabil hjá LA Galaxy, þar sem hann skoraði 52 mörk í 56 deildarleikjum.

Framherjinn hefur verið orðaður við ýmis lið í efstu deildum á Ítalíu og Englandi og eru ýmsir fréttamiðlar þaðan sammála um að næsti áfangastaður sé AC Milan.

Zlatan spilaði með Milan frá 2010 til 2012 og skoraði 42 mörk í 61 deildarleik áður en hann var fenginn yfir til Paris Saint-Germain.

Hann myndi veita Rafael Leao og Krzysztof Piatek samkeppni um framherjastöðuna en Milan hefur verið í miklum vandræðum með markaskorun á leiktíðinni. Liðið er um miðja deild, með 13 mörk skoruð í 14 leikjum.

Telegraph og Calciomercato eru meðal fjölmiðla sem greina frá þessu en það er ekki mánuður liðinn síðan Don Garber, framkvæmdastjóri MLS deildarinnar, ýjaði að því að Zlatan væri á leið aftur til ítalska félagsins.

Greint er frá því að Zlatan hafi hafnað ýmsum tilboðum úr enska og ítalska boltanum. Að lokum hafi tilboð Milan staðið uppúr.

Þetta val Zlatan kemur ekki mikið á óvart enda er ítalska deildin þekkt fyrir að vera þægileg fyrir gamlar kempur með gott markanef. Hinn 35 ára gamli Fabio Quagliarella var markahæstur síðasta vor og endaði Cristiano Ronaldo í fjórða sæti, 33 ára gamall.

Þá var Edin Dzeko 31 árs þegar hann varð markakongur 2017 og Luca Toni 38 ára þegar hann skoraði mest 2015. Hann var næstmarkahæstur ári fyrr og bjó yfir nokkrum af sömu eiginleikum og Zlatan, meðal annars frábærri staðsetningar- og skallagetu.

Antonio Di Natale og Francesco Totti eru önnur dæmi um kempur sem hafa gert frábæra hluti sem sóknarmenn í ítalska boltanum á síðustu 7 árum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner