
Kristín Anítudóttir Mcmillan er búin að skrifa undir samning við HK sem gildir út keppnistímabilið 2024.
Kristín er afar öflug og var eftirsótt af félögum úr Bestu deildinni en valdi frekar að vera áfram hjá HK.
Hún er fædd um síðustu aldamót og uppalin í Grindavík, þar sem hún lék ellefu leiki í efstu deild kvenna á sautjánda aldursári.
Kristín skipti til HK fyrir síðustu leiktíð og var mikilvægur hlekkur er Kópavogsmær reyndu að koma sér upp í deild þeirra bestu en án árangurs. HK var þó ekki langt frá því að fara upp og er stefnan sett þangað í sumar.
Kristín fór beint inn í byrjunarliðið hjá HK og er lykilmaður hjá sínu nýja félagi, sem hún spilaði 24 leiki fyrir á sínu fyrsta tímabili.
Athugasemdir