„Þetta var frábær skemmtun fyrir áhorfendur, þreytt úrslit fyrir sennilega báða þjálfara," sagði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, eftir ótrúlegt 3-3 jafntefli gegn KR í Bestu deildinni í kvöld.
Breiðablik tók 2-0 forystu í leiknum en missti það niður í 2-3. Svo jöfnuðu þeir í lokin.
Breiðablik tók 2-0 forystu í leiknum en missti það niður í 2-3. Svo jöfnuðu þeir í lokin.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 3 KR
„Það er svekkelsi að kasta þessu frá okkur. Mér fannst við spila leikinn vel heilt yfir. Við spiluðum ágætlega út úr pressunni og fengum góðar stöðu. Við skoruðum tvö góð mörk en eftir það leysa þeir leikinn upp og þá fannst mér við geta gert betur."
Voru þínir menn stressaðir eða hræddir þegar KR minnkar muninn í 2-1?
„Mér finnst við ekki bregðast vel við því. Leikurinn gjörbreytist. Þeir fara að nota Eið Gauta meira sem uppspilspunkt í gegnum Halldór. Við hleypum Halldór of ofarlega þegar hann var að setja boltann langt upp á Eið. Þá voru þeir nær markinu okkar sem var algjör óþarfi. Þeir urðu djarfari í pressu og þá ætluðu menn beint í gegn, í staðinn fyrir að hreyfa boltann og særa þá á réttum stundum. Mér finnst við bregðast illa við breytingunum þeirra."
Breiðablik kastaði einnig frá sér 2-0 forystu gegn Fram um daginn.
„Þetta er svipaður spírall. Ég veit ekki hvort við verðum undir í baráttunni en þeir koma sér hærra á völlinn með færri sendingum. Ég þarf að skoða þetta aftur en þetta eru fráköst og seinni boltar eftir horn. Það þarf að taka hvern leik fyrir sig. Við þurfum ekki að mála einhvern skratta á vegg. Þetta var frábær leikur, tvö frábær sóknarlið að berjast," sagði Dóri.
Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan þar sem Dóri ræðir meira um leik kvöldsins.
Athugasemdir