Hrannar Snær Magnússon var að vonum kampakátur með 3-0 sigur Aftureldingar á Stjörnunni á Malbikstöðinni að Varmá í kvöld. Hrannar skoraði eitt mark, ógnaði í hvívetna og var valinn maður leiksins á Fótbolti.net.
Lestu um leikinn: Afturelding 3 - 0 Stjarnan
Hrannar átti góðan leik í dag og var eðlilega glaður þegar fréttaritari spurði hann hvernig honum liði eftir leik.
„Bara geðveik tilfinning, alvöru mæting í stúkuna eins og á síðasta heimaleik. Það hjálpar okkur gríðarlega í svona leikjum og strákarnir sýndu alvöru frammistöðu í dag.“
Liðið var bara búið að skora eitt mark í deildinni fyrir þennan leik. Hvað breyttist hjá liðinu í þessum leik?
„Mér finnst við vera með meira sjálfstraust í sóknarleiknum. Við erum búnir að vera að fá fullt af færum í síðustu leikjum en erum ekki búnir að vera nógu grimmir inni í teignum, svo er þetta að koma núna.“
Frábær leikur hjá Hrannari sem er á sínu fyrsta tímabili í efstu deild. Hvernig er tilfinningin að spila í Bestu-deildinni?
„Stórkostleg tilfinning og ég er ótrúlega sáttur hvernig þetta er búið að ganga í fyrstu leikjunum og það er bara áfram gakk næsti leikur.“
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.