„Ég var mjög sáttur og léttur. Þetta var of full óþarfa mikið stress þarna undir lokin. Mjög sáttur að ná að landa þremur stigum á móti góðum Frömurum finnst mér.“ sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings Reykjavíkur, eftir 3-2 sigur hans manna gegn Fram í kvöld.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 - 2 Fram
Hvernig leið Sölva þegar það komu 9 mínútur á klukkuna og Framarar minnkuðu muninn í 3-2?
„Mér leið ekkert frábærlega en þegar 9 mínúturnar komu vissum við að það voru meiðsli í leiknum. Við bjuggumst við mínútufjöldanum en við þurftum bara að halda áfram að harka þetta út. Ég er mjög sáttur með heildarframmistöðu liðsins. Við áttum frábæran fyrri hálfleik þar sem við stjórnuðum leiknum og áttum góðar sóknir. Ég hefði viljað sjá okkur nýta þær betur fyrir hálfleikinn. En flottur leikur, eitthvað sem við getum byggt ofan á.“
Það hlýtur að hafa verið ánægjulegt fyrir Víkinga að sjá Gylfa Sig ná að skora mark í Víkingstreyjunni.
„Klárlega. Hann er búinn að vinna hart að þessu og það er flott að hann sé kominn á listann yfir markaskorara, við vissum að það myndi koma að því. Hann leggur rosalega mikla vinnu á sig inn á vellinum, það sjá það allir. Hann vinnur virkilega mikið fyrir liðið. Ánægja fyrir hans hönd að ná fyrsta markinu fyrir Víkinga.“
Það hefur mikið verið rætt og ritað um byrjun Víkinga á keppnistímabilinu. Hvernig finnst Sölva byrjun Víkinga hafa verið?
„Það eru auðvitað miklar væntingar gerðar til Víkings, við erum með rosalega stóran hóp. Við verðum líka að átta okkur á því að við erum að díla við mikið af meiðslum og nýju mennirnir eru að koma inn í þetta. Það tekur alltaf smá stund að slípa okkur saman, það er ekki kjörin aðstaða þegar menn eru að droppa frá vegna meiðsla, lykilleikmenn. Það þýðir ekkert að setja hausinn ofan í sandinn þegar illa gengur, bara kassann út og reynum að finna lausnir og þróa okkar leik. Við erum á réttri leið en mér finnst við eiga eitthvað inni. Það er ekki slæmt að vera á toppnum en finnast þér eiga eitthvað inni.“
Ingvar Jóns fór útaf meiddur en hver er staðan á honum?
„Hann hélt aðeins utan um lærið, þetta var krampa tilfinning. Veit ekki hvort hann hafi tekið skynsamlega ákvörðun að reyna ekkert á þetta og farið útaf. Vonandi er þetta ekkert alvarlegt. Hann virkaði ekkert rosalega stressaður yfir þessu. Við verðum bara að meta þetta. Hann fer með sjúkraþjálfarateyminu á næstunni að skoða það betur.“
Viðtalið við Sölva má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir