Nkunku búinn að taka ákvörðun - Richarlison gæti snúð aftur til Everton - Rodrygo til Liverpool?
   sun 04. maí 2025 16:02
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Vestri á toppinn eftir sigur í Eyjum
Vladimir Tufegdzic skoraði fyrra mark Vestra og Gunnar Jónas það seinna.
Vladimir Tufegdzic skoraði fyrra mark Vestra og Gunnar Jónas það seinna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórsvöllur í dag.
Þórsvöllur í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV 0 - 2 Vestri
0-1 Vladimir Tufegdzic ('44 )
0-2 Gunnar Jónas Hauksson ('94 )
Lestu um leikinn

Vestri tyllti sér á toppinn í Bestu deild karla með því að leggja ÍBV að velli, 2-0, á Þórsvellinum í Vestmannaeyjum í dag.

Eyjamenn voru að spila annan heimaleik sinn í deildinni og á meðan Vestri var að spila þriðja útileik sinn. Ísfirðingar höfðu náð í góð úrslit í fyrstu tveimur útileikjunum og bættu þeir þriðja leiknum við í dag.

Fyrri hálfleikurinn þróaðist þannig að Eyjamenn héldu meira í boltann en Vestri náði að koma sér betur í leikinn þegar leið á hálfleikinn.

Þrisvar í leiknum vildu heimamenn fá vítaspyrnu. Omar Sowe kallaði eftir víti strax á 15. mínútu þegar hann var tekinn niður í teignum og síðan var kallað eftir öðru þegar boltinn fór í Anton Kralj í teig Vestra, en Eyjamenn vildu meina að hann hafi farið í hönd leikmannsins. Í bæði skiptin sagði Þórður Þorsteinn Þórðarson, dómari leiksins, nei.

Fyrra mark Vestra kom á lokamínútum fyrri hálfleiks er Morten Ohlsen Hansen kom með glæsilega sendingu á Vladimir Tufgedzic sem stangaði boltann í netið. Kom algerlega upp úr engu.

Daði Berg Jónsson var ekki langt frá því að bæta við öðru í næstu sókn en skalli hans hafnaði framhjá markinu.

Eyjamenn komu sér í ágætis færi snemma í síðari hálfleik er boltinn datt fyrir Þorlák Breka Baxter en hann setti boltann í hliðarnetið og á sama tíma vildu Eyjamenn fá þriðja vítið í leiknum en fengu ekki.

Þegar hálftími var til leiksloka gat Daði Berg tvöfaldað forystuna fyrir Vestra. Tugedzic fíflaði Milan Tomic, leikmann Eyjamanna, áður en hann kom Daða í frábært færi en Marcel Zapytowski varði frá honum.

Þung pressa Eyjamanna í restina var nálægt því að skila sér í jöfnunarmarki.

Víðir Þorvarðarson kom boltanum inn á Sigurð Arnar Magnússon sem var í algeru dauðafæri en skallaði honum beint á Guy Smit í markinu.

Dýrkeypt klúður hjá ÍBV sem fékk síðan á sig annað markið nokkrum mínútum síðar. Marcel í marki Eyjamanna fór út í skógarhlaup og kýldi boltann, þó ekki lengra en á Daða sem lagði hann fyrir Gunnar Jónas Hauksson sem setti boltann í autt netið og þar við sat.

Þriðji sigur Vestra á tímabilinu staðreynd og liðið komið með 10 stig og aftur á toppinn en ÍBV áfram með 7 stig í 4. sætinu.
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Vestri 5 3 1 1 6 - 2 +4 10
2.    Breiðablik 4 3 0 1 7 - 5 +2 9
3.    Víkingur R. 4 2 1 1 7 - 2 +5 7
4.    ÍBV 5 2 1 2 6 - 7 -1 7
5.    KR 4 1 3 0 12 - 7 +5 6
6.    Fram 4 2 0 2 8 - 6 +2 6
7.    Valur 4 1 3 0 8 - 6 +2 6
8.    Stjarnan 4 2 0 2 7 - 7 0 6
9.    ÍA 5 2 0 3 5 - 9 -4 6
10.    Afturelding 4 1 1 2 1 - 5 -4 4
11.    KA 5 1 1 3 6 - 14 -8 4
12.    FH 4 0 1 3 5 - 8 -3 1
Athugasemdir