Alda Ólafsdóttir (Fram)
Alda Ólafsdóttir, sóknarmaður nýliða Fram, er sterkasti leikmaður fjórðu umferðar Bestu deildar kvenna í boði Steypustöðvarinnar.
Alda átti frábæran leik þegar Fram komst á blað í deildinni með 2-0 sigri gegn hinum nýliðunum í FHL.
Alda átti frábæran leik þegar Fram komst á blað í deildinni með 2-0 sigri gegn hinum nýliðunum í FHL.
„Það gerist ekki betra en stoðsending og mark. Alda ógnaði marki FHL stöðugt í leiknum og hefði geta bætt við mörkum," skrifaði Alexander Tonini í skýrslu sinni frá leiknum.
Alda er að spila sitt fyrsta tímabil í efstu deild síðan 2017 er hún lék með FH. en síðan þá hefur hún gengið í gegnum barnsburð. Hún er núna komin aftur í deild þeirra bestu eftir að hafa raðað inn mörkum í neðri deildum síðastliðin ár.
Alda mætti ásamt þjálfara sínum, Óskari Smára Haraldssyni, í Niðurtalninguna hér á Fótbolta.net fyrir mót þar sem rætt var um Fram-liðið. Óskar Smári hrósaði henni í hástert þar.
„Ég hrósa henni svo sjaldan. Það er allt í lagi að ég nýti tækifærið hér og geri það," sagði Óskar Smári. „Fyrir stelpur sem eignast barn og hætta í fótbolta og byrja aftur, þá er Alda fullkomin fyrirmynd fyrir það."
„Hún er besta útgáfan af sjálfum sér þegar hún kemur á æfingasvæðið. Það eru átta ár síðan hún var síðast í efstu deild. Þetta er ekki sjálfgefið. Ég held að Alda ásamt öllu mínu liði eigi eftir að koma á óvart."
„Maður verður bara sterkari eftir barnsburð," sagði Alda. „Þetta er ótrúlega gaman. Það er gaman að vera í fótbolta eftir að þú eignast barn og leyfa barninu að fylgjast með því. Að leyfa því að upplifa þetta."
Athugasemdir