Nkunku búinn að taka ákvörðun - Richarlison gæti snúð aftur til Everton - Rodrygo til Liverpool?
   sun 04. maí 2025 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Lokatakmarkið að búa til lið sem getur barist um titla á hverju einasta ári"
Getur ekki sýnt of mikinn sveigjanleika í byrjun
'Það er klárlega efniviður til staðar í KR'
'Það er klárlega efniviður til staðar í KR'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Svo koma úrslitin vonandi ef þessir hlutir smella saman'
'Svo koma úrslitin vonandi ef þessir hlutir smella saman'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Manni líður eins og það sé svigrúm til þess að bæta sig hjá mörgum af leikmönnum liðsins'
'Manni líður eins og það sé svigrúm til þess að bæta sig hjá mörgum af leikmönnum liðsins'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Mummi Lú
Annað kvöld fer KR í heimsókn á Kópavogsvöll og mætir þar Breiðabliki í 5. umferð Bestu deildarinnar. Fótbolti.net hitar vel upp fyrir leikinn en rætt var við þjálfara í aðdraganda leiksins.

Óskar Hrafn Þorvaldsson er þjálfari KR og yfirmaður fótbolta hjá KR. Í þessum öðrum hluta viðtalsins er hann spurður út í KR liðið í dag og framtíðarsýnina. Liðið er með sex stig eftir fjóra leiki og spilar mjög sókarsinnaðan fótbolta.

Spurtningin var nokkuð opin: Hvað er KR í dag? Spurningin var svo brotin niður í eftirfarandi:

Hvert er markmiðið í sumar, snýst þetta um að skemmta áhorfendum eða snýst þetta um úrslit?

„Þetta er margþætt. Það er mikilvægt fyrir okkur að KR-ingar hafi gaman af því að koma á völlinn, mikilvægt að KR-ingar skemmti sér þegar þeir koma og horfa á liðið sitt. Það er mikilvægt fyrir okkur að leikmennirnir sem eru í KR liðinu í dag haldi áfram að þróast og þroskast. Það er mikilvægt að ungu mennirnir fái þær mínútur sem þeir þurfa á að halda til að halda áfram sinni vegferð," segir Óskar.

„Það er svo kannski sérstaklega mikilvægt að við föllum ekki frá þeirri hugmyndafræði sem við erum með, jafnvel þó að það væri kannski auðveldara að falla frá henni. Þegar staðan er 1-0 fyrir okkur á móti einhverjum, 85. mínúta, þá förum við ekki niður. Það er mikilvægt að við séum staðfestir á hugmyndafræðinni sem er að sækja frá mínútu 0 til mínútu 90. Auðvitað koma tímar í leikjum á móti öllum liðum þar sem augnablikið snýst, okkur er bara þrýst niður og við þurfum að þola það að berjast fyrir lífi okkar í einhvern tímann, en hugarfarið verður alltaf að vera þannig að við ætlum að reyna brjótast fram á völlinn eins fljótt og við getum. Þá skiptir engu máli hver staðan er; hvort sem við séum yfir, undir eða jöfn staða. Svo koma úrslitin vonandi ef þessir hlutir smella saman."

„Mér líður þannig að ef þú ætlar að búa til hugmyndafræði, sem kemur til með að lifa, þá getur þú ekki sýnt of mikinn sveigjanleika í byrjun. Um leið og þú ert farinn að einblína á úrslitin, þá hefurðu tilhneigingu til þess að fara og sveigja og beygja þær vinnureglur sem eru til staðar til þess að sækja úrslit."


Lokatakmarkið að búa til lið sem getur barist um titla
Óskar nefnir að það séu ungir leikmenn að fá dýrmætar mínútur.

Sjá KR-ingar fyrir sér að í þessu liði núna sé eitthvað sem geti orðið grunnur að meistaraliði á næstu árum?

„Klárt mál. Lokatakmarkið hlýtur að vera að búa til lið sem getur barist um titla á hverju einasta ári, og á þessum forsendum, ekki neinum öðrum forsendum. Það er klárlega efniviður til staðar í KR. Þetta lið er ekki mjög ungt, en það er til þess að gera frekar reynslulítið, þannig manni líður eins og það sé svigrúm til þess að bæta sig hjá mörgum af leikmönnum liðsins."

„Það er mikill efniviður að koma upp hjá okkur á næstu árum og það er alveg klárt mál að við erum að reyna leggja grunninn að liði sem getur verið stöðugt í baráttu um titla næstu árin og vonandi áratugina,"
segir Óskar.

Leikurinn á morgun hefst klukkan 19:15 og verður að sjálfsögðu í beinni textalýsingu við Fótbolta.net. Nánar var rætt við Óskar um Breiðablik og endurkomu hans á Kópavogsvöll og verða svör hans við þeim spurningum birt í þriðja hluta viðtalsins.
Athugasemdir
banner
banner