Bayern finnst óraunhæft að geta fengið Varane - Werner tilbúinn að hafna United - Sesko til Arsenal? - Klopp hrifinn af Malen - Van de Beek á förum
banner
   þri 06. júní 2023 22:36
Ívan Guðjón Baldursson
Mjólkurbikarinn: KR í undanúrslit eftir fjöruga viðureign
watermark
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

KR 2 - 1 Stjarnan
1-0 Kristján Flóki Finnbogason ('12)
1-0 Hilmar Árni Halldórsson ('73, misnotað víti)
1-1 Baldur Logi Guðlaugsson ('94)
2-1 Ægir Jarl Jónasson ('103)


Lestu um leikinn: KR 2 -  1 Stjarnan

KR er búið að tryggja sér þátttökurétt í undanúrslitum Mjólkurbikarsins þar sem Vesturbæingar munu heimsækja ríkjandi bikarmeistara Víkings R. í byrjun júlí.

KR tók á móti Stjörnunni í 8-liða úrslitum í kvöld og úr varð gríðarlega fjörug viðureign þar sem Kristján Flóki Finnbogason kom heimamönnum yfir með skalla eftir flotta fyrirgjöf Atla Sigurjónssonar á tólftu mínútu.

Fyrri hálfleikurinn var tíðindalítill þar sem jafnræði ríkti með liðunum og leiddi KR 1-0 í leikhlé.

Kristján Flóki var næstum búinn að tvöfalda forystu KR með skalla í upphafi síðari hálfleiks en hann endaði í slánni. Það færðist heilmikið fjör í leikinn og vildu Stjörnumenn fá vítaspyrnu skömmu áður en Emil Atlason klúðraði dauðafæri með því að skjóta í andlitið á Simen Lillevik Kjellevold, sem bjargaði KR-ingum með frábærri markvörslu. 

Tíu mínútum síðar gerðist Simen brotlegur innan vítateigs en Hilmari Árna Halldórssyni brást bogalistin. Hann þrumaði boltanum yfir markið eftir að hafa sent Simen í rangt horn.

Það var gríðarlegt fjör á lokakafla leiksins þar sem KR-ingar komust nálægt því að innsigla sigurinn áður en sjö mínútum var bætt við í uppbótartíma. Stjarnan fékk hornspyrnu á 94. mínútu sem endaði með því að Baldur Logi Guðlaugsson setti boltann í stöngina og inn og jafnaði þannig leikinn.

Það voru þó nokkrar mínútur eftir og komst Aron Þórður Albertsson í algjört dauðafæri en hitti boltann illa og skaut honum yfir markið. Honum mistókst að gera sigurmark KR og því þurfti að grípa til framlengingar.

Bæði lið fengu góð færi í opnum fyrri hálfleik framlengingar, þar sem Ægir Jarl Jónasson skoraði skömmu eftir að Baldur Logi klúðraði á hinum endanum. Ægir Jarl skoraði laglegt mark þar sem hann gerði vel að taka við boltanum, leika á varnarmann og klára með marki.

Stjörnumenn leituðu að jöfnunarmarki í síðari hálfleiknum en KR-ingar vörðust hátt uppi á vellinum og gáfu ekki færi á sér þar til í lokin þegar tilraun Baldurs Loga endaði framhjá markinu. Niðurstaðan 2-1 sigur KR eftir gríðarlega spennandi viðureign.


Athugasemdir
banner
banner
banner