Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 06. september 2019 15:00
Magnús Már Einarsson
Pepe segist græða á að vera markvörður á yngri árum
Var alltaf í markinu.
Var alltaf í markinu.
Mynd: Getty Images
Kantmaðurinn snöggi Nicolas Pepe varð í sumar dýrasti leikmaðurinn í sögu Arsenal þegar félagið keypti hann frá Lille á 72 milljónir punda.

Fótboltalegur bakgrunnur Pepe er ólíkur flestum öðrum leikmönnum í fremstu röð. Hinn 24 ára gamli Pepe þótti ekki sterklega byggður á yngri árum og þegar hann byrjaði fótboltaferilinn hjá Solitaire Paris Est var hann markvörður.

Þegar Pepe var fjórtán ára gamall flutti fjölskylda hans þar sem faðir hans fékk vinnu á nýjum stað. Það átti eftir að reynast leikbreytir því þegar Pepe byrjaði að æfa með unglingaliði Poitiers FC, sem þá var í fimmtu efstu deild, þá fékk hann ekki að vera lengur markvörður.

Poitiers var með öflugan markvörð og Pepe fór að spreyta sig sem útileikmaður með ótrúlegum árangri. Hann raðaði inn mörkum í öllum leikjum og fór í kjölfarið að vinna sig upp stigann í Frakklandi áður en Lille keypti hann frá Angers árið 2017.

Pepe er mjög þakklátur fyrir þennan óvenjulega fótboltabakgrunn en hann segist búa að því að hafa verið markvörður á árum áður.

„Að hafa spilað í markinu hjálpar mér mikið núna. Ég veit hvernig markvörður hreyfir sig út frá því hvar boltinn er," sagði Pepe.

„Það þýðir að ég get skoðað stöðuna hjá markvörðum betur en aðrir leikmenn sem skilja ekki hvernig markverðir hreyfa sig."
Athugasemdir
banner
banner
banner