Munu reyna að spila á gervigrasi

Hafin er uppbygging á nýjum velli á KA svæðinu. 'Nánast engar líkur á því að það verði tilbúið fyrir júlí á næsta ári'
KA er á leið í Evrópukeppni á næsta tímabili, það varð ljóst með sigri Víkings á Val í gær. KA verður alltaf í einu af efstu þremur sætum deildarinnar og þar sem Víkingur - sem verður einnig eitt af efstu þremur liðum deildarinnar - er bikarmeistari er Evrópusætið klárt.
KA hefur spilað heimaleiki sína á þremur mismunandi völlum undanfarin tvö tímabil. Liðið byrjaði bæði tímabilin á Dalvík og í fyrra fór svo liðið á Akureyrarvöll. Í ár flutti liðið sig á nýjan heimavöll, gervigrasvöll sem staðsettur er við félagsheimilið við Lundarskóla. Ólíklegt er að sá völlur verði löglegur fyrir leiki í Evrópukeppni.
Sævar Pétursson, framkvæmdarstjóri KA, ræddi við Fótbolta.net um Evrópusætið og vallarmálin.
Sjá einnig:
Mikill léttir þegar Evrópusætið var í höfn - „Víkingur búinn að vera mikill örlagavaldur fyrir okkur síðustu daga"
„Ég hef þurft að hafa áhyggjur af því síðustu tvö ár hvar ég ætla að spila í Bestu deildinni. Þetta er mjög jákvætt vandamál að ég þurfi að hafa áhyggjur af því hvar við ætlum að spila í Evrópukeppni. Eins og staðan er í dag erum við bara ekki komnir að skoða hvað reglugerðir og annað segja."
„Mér finnst mjög ólíklegt að við fáum að spila á Akureyri. Við förum kannski að lesa einhverjar reglugerðir á næstu dögum og vikum og sjáum hvað þetta þýðir fyrir okkur. Ef við fáum ekki að spila á okkar heimavelli þá leysum við það með því að ræða við einhverja félaga okkar sem hafa löglega velli."
„Það er hafin uppbygging á vellinum okkar, nánast engar líkur á því að það verði tilbúið fyrir júlí á næsta ári. Við leysum það með einhverri góðri hjálp, það verður ekkert vandamál."
Sumarið 2012 spilaði Þór Evrópuleiki á Þórsvelli. Kemur til greina að spila þar?
„Ég held að fótboltalega, ef við viljum gefa okkur aukna möguleika, þá munum við alltaf reyna að spila á gervigrasi. Það hefur ekkert með ríg á milli Þórs og KA að gera. Það er bara það mikið undir fjárhagslega, hvort þú náir einni umferð eða tveimur umferðum í Evrópu. Ég held að við munum alltaf reyna gefa okkur sem mesta möguleika með því að reyna fá heimaleikina á gervigrasi."
„Að því sögðu er ég bara að fabúlera, við höfum ekki leyft okkur að fara djúpt í þessa umræðu. Við munum sennilega skoða það á næstu dögum hvað við getum gert," sagði Sævar.
Athugasemdir