Austurríski stjórinn Oliver Glasner urðar yfir stjórn enska úrvalsdeildarfélagsins Crystal Palace í viðtali eftir 2-1 tapið gegn Sunderland í dag, en hann segir þá sem stjórna hafa gefið skít í hann og hópinn.
Glasner segist ekki hafa fengið neinn stuðning frá Steve Parish, eiganda félagsins.
Palace seldi Eberechi Eze síðasta sumar og er þá að ganga frá sölu á Marc Guehi, fyrirliða félagsins til Manchester City.
Greint var frá því síðasta haust að Glasner hafi komið í veg fyrir söluna á Guehi til Liverpool og hafi hótað að hætta ef hún færi í gegn. Það er núna að koma á daginn að það hafi greinilega eitthvað verið til í því enda segist hann vera kominn með nóg af því hvernig leikmannamálum sé háttað hjá félaginu.
„Mér líður eins og það sé búið að yfirgefa okkur. Ég get ekki spilað mörgum leikmönnum. Þeir gerðu allt hvað þeir gátu og þetta hefur staðið yfir í fleiri vikur og mánuði.“
„Við erum með 12 eða 13 leikmenn sem eru leikfærir og fáum engan stuðning. Það versta er að við erum að selja fyrirliðann okkar einum degi fyrir úrvalsdeildarleik.“
„Við erum að undirbúa okkur og þetta var fyrsta heila æfingavikan síðan í september og síðan erum við að selja fyrirliðann einum degi fyrir leik. Ég skil bara ekkert í þessu.“
„Ég hef alltaf þagað en ég get það ekki lengur því ég verð að verja þessa leikmenn því þetta var 35. leikur okkar í dag. Já, við lendum í pressu og erum óheppnir, en það er ekki hægt að bregðast við eða hjálpa þeim sem gerir þetta ótrúlega erfitt.“
„Hjartað er rifið úr okkur tvisvar á þessu tímabili, fyrst daginn fyrir leik og svo Eberechi Eze í sumar. Núna gerðist það sama með Guehi. Hvað á ég að segja leikmönnunum? Síðan sé ég þessa frammistöðu í 50-60 mínútur í dag og kringumstæðurnar voru ekki auðveldar með 12 leikmenn í hópnum.“
„Ég horfði á bekkinn og get ekki brugðist við. Við erum bara með krakka á bekknum og það er ekki eins og þetta hafi bara gerst í gær því þetta hefur verið svona í margar vikur. Þess vegna er ég ótrúlega pirraður í dag,“ sagði Glasner.
Hann var spurður út í það hvort hann myndi láta af störfum, en hann neitaði því. Hann ætlar að standa með sínum mönnum, en það gæti þó vel farið svo að Palace láti hann taka poka sinn eftir þessi ummæli.
„Nei, aldrei myndi ég gera það. Ég mun vera með þeim fram að kveðjulokum.“
„Ég ber ótrúlega mikla virðingu fyrir karakternum hjá þeim. Ég sé að þeir eru vonsviknir og veit hvað þeir hafa lagt mikla vinnu í þetta og hvað þeir berjast til endaloka. Þannig nei ekki séns að ég fari.“
„Ég sagði leikmönnunum að við verðum að halda hópinn. Ef við fáum engan stuðning þá verðum við að gera þetta sjálfir. Það er enginn annar, við erum þeir einu og þeir sem þurfa að spila leikinn,“ sagði Glasner.
Athugasemdir


