þri 07. febrúar 2023 17:06
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Oliver búinn að rifta við Norrköping - Ætlar að spila á Íslandi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skagamaðurinn Oliver Stefánsson er búinn að yfirgefa herbúðir Norrköping og ætlar sér að spila á Íslandi á komandi tímabili. Norrköping er um þessar mundir að undirbúa sig fyrir komandi tímabil í Svíþjóð, liðið er í æfingaferð á Spáni en Oliver hefur yfirgefið hópinn og er að leita sér að nýju félagi.

Það var Kristján Óli Sigurðsson, meðlimur Þungavigtarinnar, sem vakti athygli á því að Oliver væri á leið til Íslands í færslu á Twitter. Í kjölfarið staðfesti Oliver við Fótbolta.net að hann hefði rift samningi sínum við Norrköping og að hann ætlaði sér að spila á Íslandi á komandi tímabili.

Oliver er tvítugur og lék með ÍA á láni á síðasta tímabili. Hann glímdi við meiðsli á síðasta tímabili en kom þrátt fyrir það við sögu í 23 deildarleikjum. Miðvörðurinn hefur glímt við erfið meiðsli síðustu ár en í stuttu samtali við Fótbolta.net sagði hann að skrokkurinn væri „tipp topp".

Oliver er uppalinn hjá ÍA en fór sextán ára gamall til Svíþjóðar og hefur verið samningsbundinn Norrköping undanfarin fjögur og hálft ár. Hann á að baki átján leiki fyrir yngri landsliðin en þeir væru talsvert fleiri ef ekki hefði verið fyrir meiðslin erfiðu. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir U21 gegn Skotlandi í nóvember á síðasta ári.

Viðtal við Oliver eftir tímabilið með ÍA:
Alltaf beðið eftir þessari upplifun


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner