Skoski varnarmaðurinn Andy Robertson vonast til að halda áfram að spila með Mohamed Salah, en viðurkennir að það sé ekki undir honum komið. Þetta sagði hann eftir 1-0 sigur liðsins á Inter í Meistaradeildinni í kvöld.
Dominik Szoboszlai var hetja Liverpool gegn Inter, en hann skoraði úr vítaspyrnu í blálokin eftir að brotið var á Florian Wirtz í teignum.
Liverpool kom sér í 8. sæti deildarkeppninnar sem gefur þátttöku í 16-liða úrslitin.
„Risastór úrslit. Við vissum að við vorum að koma á erfiðan stað gegn liði sem er á góðu skriði. Við þurftum að berjast í þessum leik og það var mikilvægt að halda hreinu. Síðan náum við að skora þetta mark,“ sagði Robertson.
Mark var tekið af Ibrahima Konate í fyrri hálfleiknum en það tók dágóðan tíma að skoða atvikið. Robertson var óánægður með ákvörðun dómarans að taka markið af Liverpool.
„Það tók sjö eða átta mínútur að skoða þetta hendi. Ef þú þarft þess þá verður þú að halda þig við ákvörðun vallardómarans. Þú verður bara að halda þig við þá ákvörðun. Vítaspyrnan virkaði rosalega ódýr en þetta er brot annarstaðar á vellinum.“
Síðustu vikur hafa verið erfiðar fyrir Liverpool og ekki síst vegna ummæla Mo Salah eftir 3-3 jafnteflið gegn Leeds þar sem hann hraunaði yfir Arne Slot og Liverpool. Hann þurfti að dúsa á bekknum þrjá leiki í röð og sagðist vera blóraböggullinn í slöku gengi liðsins.
Salah var ekki í hópnum í kvöld, en Robertson vonast þó til þess að hann verði áfram í herbúðum félagsins.
„Við þurftum allir á þessu að halda. Við vitum að úrslitin og frammistaðan er ekki nógu góð. Það er mikilvægt fyrir þetta félag að vera í Meistaradeildinni og því voru þetta risastór úrslit fyrir allt félagið.“
„Þetta er erfið staða. Við erum að tala um einn besta leikmann í sögu félagsins. Ég kom til Liverpool í sama glugga, en það sem gerðist, gerðist, en við erum samt enn allir saman í þessu.“
„Það er ekki undir mér komið, heldur er annað fólk sem verður að meta það. Ég elska að spila með Mo Salah og vonandi held ég áfram að spila með honum.“
Tveir leikir eru eftir af deildarkeppninni en Liverpool er í kjörstöðu með 12 stig í 8. sæti. Einn sigur gæti dugað til þess að enda meðal átta efstu.
„Við vitum hvað það er mikilvægt að enda meðal átta efstu og komast hjá því að fara í umspilið. Við vorum óheppnir með dráttinn á síðustu leiktíð,“ sagði Robertson.
Athugasemdir




