banner
   lau 07. maí 2022 18:35
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Dramatík í Garðabæ - Tvö rauð í markalausu jafntefli á Meistaravöllum
Emil Atlason heldur áfram að skora
Emil Atlason heldur áfram að skora
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bykov var rekinn af velli í fyrri hálfleik fyrir að slá Kjartan Henry
Bykov var rekinn af velli í fyrri hálfleik fyrir að slá Kjartan Henry
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Arnar Grétarsson var einnig sendur upp í stúku eftir að hann fékk rauða spjaldið í byrjun síðari hálfleiks
Arnar Grétarsson var einnig sendur upp í stúku eftir að hann fékk rauða spjaldið í byrjun síðari hálfleiks
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Það var mikið um að vera í Bestu deild karla í dag en þrír leikir enduðu með jafntefli. Framarar náðu í gott stig í Garðabæ er liðið gerði 1-1 jafntefli við Stjörnuna á meðan KR og KA gerðu markalaust jafntefli á Meistaravöllum.

Það var jafnræði með Fram og Stjörnunni fyrri hluta fyrri hálfleiks en það voru Framarar sem náði forystunni í gegnum Guðmund Magnússon. Alex Freyr Elísson keyrði af eigin vallarhelming og fram völlinn, því næst þræddi hann boltann í gegn.

Guðmundur og Albert Hafsteinsson gerðu sig líklega en Haraldur Björnsson, markvörður Stjörnunnar, kom út á móti, en það vildi ekki betur til en svo að boltinn datt fyrir Guðmund sem skoraði í autt markið.

Bæði lið sköpuðu sér fínustu færi og höfðu markverðirnir nóg að gera í leiknum. Staðan í hálfleik 1-0 fyrir Fram.

Það var mikill kraftur í Stjörnumönnum í byrjun síðari hálfleiks og skapaði liðið sér nokkur ágætis færi áður en Emil Atlason jafnaði metin á 69. mínútu.

Jóhann Árni Gunnarsson átti aukaspyrnu inn á teiginn og náði Emil að skalla boltann í netið.

Delphin Tshiembe var nálægt því að skora sjálfsmark tveimur mínútum síðar. Ólafur Íshólm Ólafsson, markvörður Fram, varði skot og ætlaði Delphin svo að senda boltann til baka en var hársbreidd frá því að koma boltanum í net en hann lak rétt framhjá stönginni.

Undir lok leiks voru bæði lið nálægt því að skora en í bæði skiptin var bjargað á línu á innan við mínútu. Gríðarleg dramatík á Samsung-vellinum en fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 1-1. Fram er með 2 stig eftir á meðan Stjarnan er með 8 stig.

Markalaust í vesturbæ

Það var ekki minni dramatík í markalausu jafntefli KR og KA á Meistaravöllum.

Atli Sigurjónsson átti fyrsta dauðafæri leiksins á 28. mínútu en hann skaut boltanum framhjá þegar hann var aðeins tveimur metrum frá markinu.

KA-menn misstu mann af velli nokkrum mínútum síðar er Oleksii Bykov sló Kjartan Henry Finnbogason. Bykov rekinn af velli og KA menn manni færri.

Pálmi Rafn Pálmason kom boltanum í netið undir lok fyrri hálfleiks eftir að boltinn hafði hrokkið af Atla og í átt að Pálma sem skoraði og fagnaði vel og innilega. Dómararnir ræddu sín á milli áður en markið var tekið af en það var snertingin frá Atla sem gerði Pálma rangstæðan.

Það sauð upp úr áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks er Stefán Árni Geirsson virtist henda Elfari Árna Aðalsteinssyni í jörðina og uppskar hann gult spjald fyrir. Leikmenn KA voru brjálaðir og heimtuðu rautt spjald en fengu ekki.

Í byrjun síðari hálfleiks var síðan Arnar Grétarsson, þjálfari KA, rekinn upp í stúku og annað rauða spjaldið sem KA-menn fá í leiknum.

Steinþór Már Auðunsson, markvörður KA, varði oft vel í leiknum og átti stóran þátt í að landa stigi fyrir liðið. KA hélt út þrátt fyrir að vera manni færri og lokatölur 0-0. KA er með 10 stig í 2. sæti en KR í 7. sæti með 4 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Stjarnan 1 - 1 Fram
0-1 Guðmundur Magnússon ('27 )
1-1 Emil Atlason ('69 )
Lestu um leikinn

KR 0 - 0 KA
Rautt spjald: ,Oleksii Bykov, KA ('36)Arnar Grétarsson, KA ('48) Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner