Arsenal hyggst gera annað tilboð í Kóreumanninn - Al-Hilal undirbýr tilboð í Bruno Fernandes - Tah undir smásjá Newcastle
   mið 07. maí 2025 12:03
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Segir Júlíus 35 ára í anda - „Þannig menn eru fæddir til að vera fyrirliðar"
Júlíus Mar er algjör lykilmaður fyrir KR.
Júlíus Mar er algjör lykilmaður fyrir KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Var öflugur í leiknum.
Var öflugur í leiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er þvílíkur heiður. Eitthvað sem mig hefur dreymt um frá því ég kom til liðsins," sagði Júlíus Mar Júlíusson, leikmaður KR, eftir 3-3 jafntefli gegn Breiðabliki á dögunum.

Júlíus Mar var fyrirliði KR í leiknum þrátt fyrir að vera að spila bara sinn þriðja deildarleik fyrir Vesturbæjarstórveldið en hann kom frá Fjölni í vetur. Það sem meira er að þá er hann bara tvítugur.

Aron Sigurðarson, fyrirliði KR, var meiddur í leiknum og gat ekki spilað. Því fékk Júlíus fyrirliðabandið en Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, var spurður út í þá ákvörðun eftir leikinn.

„Júlíus er 35 ára í anda," sagði Óskar Hrafn einfaldlega.

„Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af því að hann kikni eitthvað sérstaklega undan bandinu. Hann er bara einn af leiðtogunum í þessum hóp."

„Maður finnur fyrir nærveru hans á æfingum og svo finnur maður líka fyrir fjarveru hans sterkt. Þannig menn eru fæddir til að vera fyrirliðar. Hann er bara öflugur leiðtogi í þessum hóp og frábær leikmaður," sagði Óskar.

Óskar segir að í fullkomnum heimi verði Aron Sig klár í næsta leik liðsins gegn ÍBV á laugardaginn. Ef ekki, þá í næsta leik. „Við reynum allt sem við getum til að koma okkar besta manni á lappir eins hratt og mögulegt er en þó þannig að við séum ekki að taka neina sénsa."
Athugasemdir
banner
banner