
Fyrsti leikur Íslands á Evrópumótinu fer fram á morgun er stelpurnar okkar mæta Finnlandi. Í riðlinum eru líka Noregur og Sviss en það eru góðir möguleikar á því að gera góða hluti á þessu móti.
Fyrir fyrsta leik á mótinu ætlum við að kynna lesendum betur fyrir öllum leikmönnum liðsins og næst eru það miðjumennirnir okkar.
Fyrir fyrsta leik á mótinu ætlum við að kynna lesendum betur fyrir öllum leikmönnum liðsins og næst eru það miðjumennirnir okkar.
2. Berglind Rós Ágústsdóttir
Aldur: 29 ára
Staða: Djúpur miðjumaður
Heimabær: Reykjavík
Uppeldisfélag: Valur
Félag: Valur
Fyrrum félög: Afturelding, Fylkir, Örebro, Sporting de Huelva
Landsleikjafjöldi og mörk: 20 leikir og 1 mark
Berglind Rós ólst upp í Val og steig sín fyrstu skref í meistaraflokki þar, ásamt því að fara á lán í Aftureldingu. En það var hjá Fylki þar sem íslenskir fótboltaunnendur muna kannski mest eftir Berglindi Rós.
Hún gekk í raðir Fylkis undir lok árs 2016 og var hún fljótlega komin með fyrirliðabandið í Árbænum. Hún var í liði ársins er hún hjálpaði Fylkiskonum að komast upp úr næst efstu deild árið. Hún náði svo að festa sig í sessi sem einn öflugasti miðjumaður Bestu deildarinnar á næstu árum og árið 2020 fékk hún sitt fyrsta tækifæri með A-landsliðinu.
Berglind Rós var gríðarlega mikilvægur leikmaður fyrir Fylki en eftir tímabilið 2020, þá ákvað hún að taka stökkið út í atvinnumennsku þar sem hún gekk í raðir Örebro í Svíþjóð. „Það var mjög erfitt að kveðja alla í Fylki. Ég hef kynnst svo mörgum frábærum stelpum, þjálfurum og fólki. Eftir að ég tilkynnti að ég væri að fara út þá fékk ég fullt af skilaboðum frá Fylkisfólki hvað þau væru stolt, ánægð og glöð fyrir mína hönd. Ég mun ávallt vera þakklát fyrir allt sem Fylkir hefur gert fyrir mig," sagði Berglind þegar hún gekk í raðir Örebro en var þá búin að ganga í gegnum þrjú erfið meiðsli á ferlinum.
Berglind átti mjög góðan tíma í Svíþjóð þar sem hún fékk meðal annars að spreyta sig í nýrri stöðu. Hún spilaði um tíma sem sóknarmaður hjá Örebro og skoraði fullt af mörkum. Hún getur leyst fjöldann allan af stöðum en hennar besta staða er sem djúpur miðjumaður. Eftir tímann í Örebro fór hún í nokkra mánuði til Spánar þar sem hún lék í spænsku úrvalsdeildinni og svo sneri hún heim í Val, þar sem þetta byrjaði allt.
Frá því hún kom heim þá hefur Berglind verið virkilega góð þá meiðsli hafi truflað hana á þessu tímabili. Í fyrra mynduðu hún og Katie Cousins stórkostlegt par á miðju Vals. Utan vallar er Berglind útskrifuð sem hjúkrunarfræðingur en hún stundaði það nám meðfram fótboltanum.
7. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir
Aldur: 23 ára
Staða: Framliggjandi miðjumaður eða kantur
Heimabær: Hafnarfjörður
Uppeldisfélag: FH
Félag: Bayern München
Fyrrum félög: FH, Breiðablik, Bayer Leverkusen
Landsleikjafjöldi: 54 leikir og 15 mörk
Karólína Lea er að fara á sitt annað stórmót með Íslandi en EM í Englandi var hennar fyrsta mót. Segja má að hún hafi orðið að ákveðinni stjörnu fyrir íslenska landsliðið á því móti og verður því seint gleymt þegar hún skoraði gegn Ítalíu og renndi sér að íslensku stuðningsmönnunum.
Karólína er uppalin í FH og lék þar upp alla yngri flokkana. Hún var þar í sterkum áröngum með til dæmis Guðnýju Árnadóttur og Diljá Ýr Zomers sem eru einnig á leiðinni á EM í Sviss. Karólína spilaði sína fyrstu leiki í meistaraflokki FH árið 2016, þegar hún var á 15. aldursári og skoraði hún sitt fyrsta mark í efstu deild þegar hún var aðeins 14 ára gömul.
Þegar nafn Karólínu er skrifað í leitarkerfinu hér á síðunni og farið til baka er ein af fyrstu fréttunum frá 2016 þegar hún skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild. Fyrirsögnin er: Fædd 2001 og skoraði sigurmark í Pepsi deildinni og í fyrstu setningunni segir: „Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er nafn sem fylgjendur fótbolta á Íslandi ættu að leggja á minnið." Hún lék þá sinn fyrsta leik í efstu deild og skoraði sigurmark FH gegn ÍA er hún kláraði færi sitt eins og reyndur framherji. Nokkrum árum síðar þekkja allir á Íslandi og víða um heim nafn hennar.
Eftir tvö tímabil í efstu deild með FH, þá samdi hún við Breiðablik. Þar varð hún Íslandsmeistari tvisvar og bikarmeistari einu sinni hjá Þorsteini Halldórssyni, núverandi landsliðsþjálfari. Hún braut sér svo leið inn í byrjunarlið íslenska landsliðsins árið 2020 og upp úr því kom tækifæri sem var erfitt hafna þegar Bayern München, þýska stórveldið, hringdi.
Karólína gekk í raðir Bayern og þar fékk hún ekki mörg tækifæri, en hún hefur spilað vel á láni hjá Bayer Leverkusen síðustu tvö tímabil. Núna virðist svo flest benda til þess að hún verði keypt til ítalska stórliðsins Inter.
Karólína er skemmtilegur karakter og í dag er hún afar mikilvægur leikmaður fyrir íslenska landsliðið. Hún spilar vanalega í holunni og þar líður henni best. Hún er frábær á boltanum og með góðan skotfót. Hún skoraði þrennu fyrir landsliðið gegn Sviss fyrr á þessu ári og er líkleg til að koma að mörkum á þessu Evrópumóti. Gylfi Þór Sigurðsson er frændi hennar og þau eru ekki ólíkir leikmenn. Hún er bara 23 ára gömul og er framtíðarstjarna í fótboltanum.
8. Alexandra Jóhannsdóttir
Aldur: 25 ára
Staða: Djúpur miðjumaður
Heimabær: Hafnarfjörður
Uppeldisfélag: Haukar
Félag: Kristianstad
Fyrrum félög: Breiðablik, Eintracht Frankfurt, Fiorentina
Landsleikjafjöldi: 55 leikir og 6 mörk
Alexandra og Karólína eru bestu vinkonur eftir að þær spiluðu saman í Breiðabliki og svo í landsliðinu. Þær eru báðar úr Hafnarfirði en koma ekki úr sama félaginu því Alexandra er uppalin í Haukum og steig sín fyrstu skref þar.
Fyrir þá sem bjuggu í kringum Ásvelli á árum áður, þá var það löngu vitað að Alexandra væri leikmaður sem gæti náð langt. Hún varð fljótt gríðarlega efnilegur leikmaður fyrir Hauka en þarna var að koma upp efnilegasti leikmaðurinn hjá félaginu frá því Sara Björk Gunnarsdóttir kom upp á Ásvöllum.
Alexandra byrjaði að spila með meistaraflokki 2015 og ári síðar var hún komin í lykilhlutverk er hún hjálpaði Haukum að komast upp í efstu deild. Tímabilið þar á eftir var erfitt fyrir Hauka sem féll beint niður aftur, en það var alveg ljóst að Alexandra myndi ekki taka annað tímabil í næst efstu deild. Hún var eftirsótt og samdi að lokum við Breiðablik.
Hún var stórkostleg fyrir Blika og var valin í landsliðið í fyrsta sinn seinna árið 2018. Hún varð tvöfaldur meistari á sínu fyrsta tímabili með Blikum og var valin bæði best og efnilegust á sínu öðru tímabili í deildinni. „Ég sé alls ekki eftir að hafa skipt og sé heldur ekkert eftir því að hafa verið í Haukum í fyrra. Það var svaka reynsla að vera þar og þurfa að spila vörn allt tímabilið. Hér er ég í öðruvísi hlutverki. Við erum miklu meira með boltann," sagði Alexandra eftir að Blikar urðu Íslandsmeistarar.
Hún framlengdi við Breiðablik eftir tímabilið og tók þar tvö tímabil í viðbót þar sem hún varð Íslandsmeistari einu sinni í viðbót. Alexandra fór svo út til Frankfurt í Þýskalandi og fann sig ekki alveg þar, en tók svo skrefið til Fiorentina þar sem hún spilaði stórt hlutverk framan af. Núna er hluti af Íslendingafélaginu Kristianstad og er að njóta sín í botn þar.
Alexandra kemur inn í þetta mót í öðruvísi hlutverki þar sem hún var meira á bekknum á síðasta móti. Hún er núna búin að taka að sér stærra hlutverk í landsliðinu og búin að taka við keflinu af hetjunni sinni, Söru Björk.
10. Dagný Brynjarsdóttir
Aldur: 33 ára
Staða: Djúpur eða framliggjandi miðjumaður
Heimabær: Hella
Uppeldisfélag: KFR
Félag: West Ham
Fyrrum félög: KFR/Ægir, Valur, Florida State, Selfoss, Bayern München, Portland Thorns
Landsleikjafjöldi: 119 og 38 mörk
Mamman í liðinu er að fara á sitt fjórða stórmót með Íslandi en hún og Glódís eru þær einu í hópnum sem hafa farið á svona mörg mót. Dagný er frá Hellu og hóf fótboltaferil sinn með KFR, en meistaraflokksferillinn hófst með sameiginlegu liði KFR og Ægis.
Dagný fór svo í Val árið 2007 þar sem hún vann sér með tímanum stórt hlutverk í liðinu. Hún varð Íslandsmeistari með Val 2007, 2008, 2009 og 2010, en fyrsti landsleikurinn kom 2010 gegn Bandaríkjunum á Algarve.
Hún fór í háskólaboltann í Bandaríkjunum frá 2011 til 2014 og spilaði þar með Florida State. Þegar hún kom heim, þá gekk hún í raðir Selfoss en fór svo fljótlega aftur erlendis. Hún samdi við þýska stórveldið Bayern München sem var á þeim tíma ekki komið á þann stað sem það er á í dag í kvennaboltanum. Dagný stoppaði ekki lengi þar og fór hún til Portland Thorns í Bandaríkjunum þar sem hún festi sig í sessi. Undir lok tíma síns hjá félaginu eignaðist hún sitt fyrsta barn og sneri aftur heim í Selfoss.
Þó stoppaði hún ekki mjög lengi því hún gekk í raðir enska úrvalsdeildarfélagsins West Ham árið 2021. Hún er þar enn í dag en það er óvíst hvort hún leiki þar áfram á næsta tímabili.
Dagný, sem er goðsögn í íslenskum fótbolta, er nýbúin að eignast sitt annað barn en er samt sem áður mætt á Evrópumótið með Íslandi. Hún er hávaxinn miðjumaður sem getur leyst það að spila djúp á miðju og framarlega á miðju, en hún getur líka spilað fremst á vellinum.
Dagný er sterkur karakter og lætur ekki vaða yfir sig. Hún er grjóthörð inn á vellinum og utan hans. Það er afar mikilvægt fyrir stelpurnar okkar að vera með þá reynslu og þann karakter sem hún býr yfir í hópnum.
15. Katla Tryggvadóttir
Aldur: 20 ára
Staða: Framliggjandi miðjumaður eða kantur
Heimabær: Reykjavík
Uppeldisfélag: Valur
Félag: Kristianstad
Fyrrum félög: Valur, Þróttur Reykjavík
Landsleikjafjöldi: 6 leikir og 0 mörk
Kjúllinn í hópnum er á leiðinni á sitt fyrsta stórmót en án efa ekki það síðasta. Katla er gríðarlega hæfileikarík fótboltakona sem nokkur af stærstu félögum Evrópu eru að fylgjast með. Þrátt fyrir að hún sé ung að árum þá er langt síðan maður heyrði nafn hennar fyrst þar sem hún var að gera stórkostlega hluti í yngri flokkum Vals og með KH í 2. deild.
Árið 2020 fékk Katla, sem er fædd árið 2005, sín fyrstu tækifæri með meistaraflokki Vals og spilaði hún aðeins meira árið eftir, en hún var ekki sátt með tækifærin sem hún fékk og ákvað að söðla um; hún fór í Laugardalinn og samdi þar við Þróttara.
Þetta var gott skref fyrir Kötlu sem þróaðist áfram í Þrótti undir handleiðslu Nik Chamberlain og Eddu Garðarsdóttur. Hún fékk þær mínútur sem hún þurfti og sýndi það strax að hún gæti spilað vel í Bestu deildinni. Eftir tímabilið 2022 var hún valin efnilegasti leikmaður deildarinnar af öðrum leikmönnum.
Hún var í þeim hópi sem fór á lokakeppni EM U19 landsliða í fyrra og var stjarnan í því liði ef svo má segja þrátt fyrir að vera ekki elsti leikmaðurinn þar. Hún var svona sá leikmaður sem mest fór í gegnum. Og áfram hélt hún að spila vel með Þrótti þar sem hún var í liði umferðarinnar í hverri umferðinni á fætur annarri. Það var eins og boltinn væri límdur við lappirnar á henni þetta sumarið, svo mikil var tæknin.
Eftir tímabilið 2023 gekk hún í raðir Kristianstad sem er mikið Íslendingafélag og sást það fljótt að sænska úrvalsdeildin væri skref sem væri ekki of stórt fyrir Kötlu. Á tíma sínum hjá Kristianstad hefur Katla verið einn öflugasti leikmaður deildarinnar og er eins og áður segir undir smásjá stærri félaga. Þrátt fyrir að vera bara á sínu öðru tímabili þarna, þá er hún komin í fyrirliðahóp félagsins; léttur og skemmtilegur karakter.
Katla spilaði sína fyrstu landsleiki í fyrra og er núna komin á fyrsta stórmótið, en eins og áður segir þá verður þetta ekki síðasta stórmótið hjá þessum frábæra leikmanni.
16. Hildur Antonsdóttir
Aldur: 29 ára
Staða: Djúpur miðjumaður
Heimabær: Reykjavík
Uppeldisfélag: Valur
Félag: Madríd CFF
Fyrrum félög: Valur, Breiðablik, Fortuna Sittard
Landsleikjafjöldi: 27 leikir og 2 mörk
Saga Hildar er kannski ein sú áhugaverðasta í þessum hóp því eftir EM í Englandi urðu breytingar á landsliðinu. Miðjan fór eiginlega öll út á einu bretti þar sem Dagný varð ólétt, Sara Björk hætti með landsliðinu og Gunnhildur Yrsa gerði slíkt hið sama. Þá myndaðist ákveðið pláss og Hildur nýtti sér það.
Það má segja að Hildur sé 'late bloomer' í fótboltanum þó hún hafi verið valin efnilegust í Bestu deildinni 2011 er hún lék með Val. Hún spilaði ágætlega með Val árin eftir en fór óvænt í Breiðablik 2016. Hún fór á láni í HK/Víking í byrjun sumars 2018 og kannski fann sig aftur þar. Hún var valin í úrvalsliðið 2018 er Breiðablik varð Íslands- og bikarmeistari en hún spilaði með Blikum seinni hlutann.
Hún var þá besti miðjumaður Bestu deildarinnar 2019 og þá var farið að tala um hana í tengslum við landsliðið. Hildur hafði á þeim tímapunkti ekki spilað landsleik. Svo kom fyrsti landsleikurinn gegn Norður-Írlandi í mars 2020.
Hildur meiddist 2020 og sneri aftur 2021, en svo var hún keypt út til Fortuna Sittard í Hollandi árið 2022. Það reyndist henni mikið heillaskref því hún spilaði afar vel þar og vann sér inn sæti í A-landsliðinu það tækifæri gafst. Þegar hún var svo komin inn í A-landsliðið þá var hún aldrei að fara að gefa það sæti eftir. Hún spilaði sinn fyrsta keppnisleik gegn Wales í Þjóðadeildinni 2023 og lék þar stórkostlega.
„Hildur var svo eins og vél inn á miðjunni. Hún vann mikið af boltum og náði að keyra á þær. Hún hefði mátt vera rólegri á boltanum, en hún hefur burði til að vera lykilmaður í landsliðinu næstu árin," sagði Steini landsliðsþjálfari eftir leikinn gegn Wales en í dag er Hildur líkleg til að byrja á EM eftir að hafa beðið þolinmóð eftir sínu tækifæri.
Athugasemdir