Bayern München gæti gert óvænt tilboð í Rashford - Liverpool hafnaði fyrirspurn Bayern um Díaz og ætlar ekki að selja hann
   mið 02. júlí 2025 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Thun
Þetta eru sóknarmenn Íslands - Uppáhald þjóðarinnar
Icelandair
EM KVK 2025
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Sandra María með dóttur sinni.
Sandra María með dóttur sinni.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Sandra María er líkleg til að byrja í fremstu víglínu á EM.
Sandra María er líkleg til að byrja í fremstu víglínu á EM.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Diljá Ýr Zomers.
Diljá Ýr Zomers.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Fann sig þegar hún fór til Svíþjóðar.
Fann sig þegar hún fór til Svíþjóðar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hlín er núna á sínu fyrsta stórmóti með Íslandi.
Hlín er núna á sínu fyrsta stórmóti með Íslandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Raðaði inn mörkum með Val fyrir nokkrum árum.
Raðaði inn mörkum með Val fyrir nokkrum árum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hlín í leik með landsliðinu.
Hlín í leik með landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Agla María er ein besta fótboltakona í sögu efstu deildar á Íslandi.
Agla María er ein besta fótboltakona í sögu efstu deildar á Íslandi.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Agla María í leik með Breiðabliki.
Agla María í leik með Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hafrún Rakel Halldórsdóttir.
Hafrún Rakel Halldórsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Afar fjölhæfur leikmaður.
Afar fjölhæfur leikmaður.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Amanda gat bæði spilað fyrir Noreg og Ísland.
Amanda gat bæði spilað fyrir Noreg og Ísland.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Í leik á EM 2022.
Í leik á EM 2022.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarleikur Íslands fer mikið í gegnum Sveindísi.
Sóknarleikur Íslands fer mikið í gegnum Sveindísi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fagnar titli með Wolfsburg.
Fagnar titli með Wolfsburg.
Mynd: Mirko Kappes
Sveindís í leik með landsliðinu.
Sveindís í leik með landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Er að fara á sitt annað stórmót.
Er að fara á sitt annað stórmót.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er leikdagur. Í dag hefur Ísland leik á EM kvenna er stelpurnar okkar mæta Finnlandi í Thun í Sviss.

Fótbolti.net hefur síðustu daga hitað upp fyrir mótið með leikmannakynningum. Fyrst voru markverðirnir teknir fyrir, svo varnarmennirnir, því næst miðjumennirnir og núna að lokum eru það sóknarmennirnir.

3. Sandra María Jessen
Aldur: 30 ára
Staða: Kantur eða striker
Heimabær: Akureyri
Uppeldisfélag: Þór
Félag: Þór/KA
Fyrrum félög: Bayer Leverkusen, Slavia Prag
Landsleikjafjöldi og mörk: 54 leikir og 7 mörk

Sandra María Jessen er algjör nagli en hún hefur komið til baka eftir erfið meiðsli og barnsburð. Hún skoraði á dögunum sitt fyrsta landsliðsmark í níu ár og er líkleg til að byrja sem fremsti leikmaður Íslands í leiknum á eftir.

Fólk hefur lengi vitað af því hversu ótrúlega góð Sandra María er í fótbolta en hún byrjaði að spila með meistaraflokki Þórs/KA árið 2011. Sumarið eftir, 2012, verður Þór/KA Íslandsmeistari og Sandra María er markahæsti leikmaður Íslandsmótsins með 18 mörk í 18 leikjum. Ótrúlegt hjá 17 ára gömlum leikmanni. Það sumar var hún líka í fyrsta sinn kölluð inn í A-landsliðið. „Þetta er það besta sem gerist, þetta er toppurinn á sumrinu og bara frábært," sagði Sandra þegar Íslandsmeistaratitillinn var í hús.

Sandra fór ekki með á EM 2013, en fór þess í stað með U19 landsliðinu á lokakeppni. Snemma árs 2014 sleit hún krossband en það eru ekki einu erfiðu meiðslin sem hún hefur lent í á ferlinum. Hún sleit einnig krossband í mars 2017 en kom til baka eftir það á einhvern ótrúlegan hátt og náði að vera með á EM í Hollandi. Það sumar varð hún einnig Íslandsmeistari með Þór/KA í annað sinn.

Eftir tímabilið 2018 þar sem hún skoraði 14 mörk í 18 leikjum ákvað Sandra að fara í atvinnumennsku og samdi við Bayer Leverkusen þar sem hún hafði leikið á láni um stutt skeið 2016. Hún fór líka til Slavia Prag í Tékklandi á láni, en sneri aftur heim eftir að hún eignaðist sitt fyrsta barn.

Síðustu ár hefur Sandra verið mögnuð með Þór/KA og leitt ungt lið áfram. Hún var markadrottning Bestu deildarinnar í fyrra með 22 mörk í 23 leikjum og er núna mætt á Evrópumótið í annað sinn, en í þetta skiptið sem móðir.

9. Diljá Ýr Zomers
Aldur: 23 ára
Staða: Kantur eða striker
Heimabær: Hafnarfjörður
Uppeldisfélag: FH
Félag: OH Leuven
Fyrrum félög: FH, Stjarnan, Valur, Häcken, Norrköping
Landsleikjafjöldi: 20 leikir og 2 mörk

Það var mikil óvissa með það hvort Diljá gæti verið með á Evrópumótinu í sumar þar sem hún hefur verið að glíma við flókin meiðsli í aðdraganda mótsins. Hún sagði frá því í viðtali við Fótbolta.net á dögunum að hún hefði verið mjög stressuð áður en hópurinn sem var valinn en var auðvitað í skýjunum þegar hún sá nafn sitt þar.

Ferill Diljár er mjög áhugaverður. Það var ekki alltaf augljóst að hún yrði landsliðskona. Hún náði ekki að sýna sig alveg og sanna í deildinni hér heima og fékk oft á tíðum ekki traust til að spila. Hún var í yngri flokkum FH og steig sín fyrstu skref þar, en fór svo í Stjörnuna eftir að Fimleikafélagið féll úr efstu deild.

Hún tók svo eitt tímabil með Val áður en hún fylgdi kærasta sínum, Valgeiri Lunddal, til Svíþjóðar. Valgeir hafði þá gengið í raðir Häcken eftir gott tímabil með Val en Diljá var óviss með það hvað hún ætlaði að gera.

„Ég var orðin þreytt á þessu öllu; inn og út, spila og ekki spila. Að fá tækifæri og nýta það alveg, en fá svo ekkert fyrir það. Ég ákveð að mig langar að flytja með Valgeiri til Svíþjóðar, langar að gefa í skít allt heima, halda áfram í náminu og leika mér bara með einhverju liði í neðri deildunum í Svíþjóð. Ég kaupi mér bara miða aðra leiðina og ætla bara að sjá," sagði Diljá í viðtali við Fótbolta.net árið 2023.

Hún var við það að hætta í fótbolta en fékk svo tækifæri til að æfa með Häcken í Svíþjóð þar sem hún fann sjálfa sig í fótboltanum. Hún spilaði svo með Norrköping og brilleraði eftir það með Leuven í Belgíu.

Diljá var markahæsti leikmaðurinn í Belgíu á sínu fyrsta tímabili þar, en ætlar að hefja nýjan kafla einhvers staðar annars staðar í sumar. Eftir að hafa farið til Svíþjóðar, þá vann Diljá sig inn í landsliðið og hefur inn skilað góðum frammistöðum í íslenska landsliðsbúningnum.

14. Hlín Eiríksdóttir
Aldur: 25 ára
Staða: Kantur eða striker
Heimabær: Reykjavík
Uppeldisfélag: Valur
Félag: Leicester
Fyrrum félög: Valur, Piteå, Kristianstad
Landsleikjafjöldi: 50 leikir og 6 mörk

Hlín kemur af miklum fótboltaættum en móðir hennar goðsögnin Guðrún Sæmundsdóttir sem spilaði á árum áður með landsliðinu. Guðrún hefur nýverið slegið í gegn í Systraslag, þáttum um sögu kvennalandsliðsins. Systur Hlínar eru líka í fótbolta og ein þeirra, Arna, var ekki langt frá því að vera í landsliðshópnum sem fór núna á EM.

Hlín er núna að fara á sitt fyrsta stórmót með Íslandi en hún gat alveg leyft sér að vera svekkt með það að fara ekki með á EM í Englandi fyrir þremur árum. Á þeim tíma var hún að leika afar vel með Piteå í Svíþjóð og gerði sterkt tilkall, en rétt missti af farmiðanum.

Hlín er uppalin í Val og var með gríðarlegt markanef í yngri flokkunum. Skoraði hún til að mynda 25 mörk í 14 leikjum eitt sumarið með 3. flokki. Hún var þá langmarkahæst og Valur tapaði ekki leik. Hún er öðruvísi leikmaður en systir sínar sem spila aftar á vellinum, en Hlín er markaskorari.

Hún kom fyrst inn í meistaraflokk Vals 2015, þegar hún var á 15. aldursári, og það leið ekki á löngu þar til hún var farin að láta að sér kveða. Árið 2019 sprakk hún gjörsamlega út og skoraði þá 16 mörk í 18 leikjum í Bestu deildinni. Hún var markahæsti leikmaður deildarinnar ásamt Elínu Mettu og Berglindu Björgu, liðsfélögum sínum í landsliðinu, en Hlín hafði leikið sína fyrstu landsleiki árið 2018.

Eftir að hafa skorað 11 mörk í 16 leikjum árið 2020, þá fer Hlín verðskuldað út í atvinnumennsku. Hún samdi við Piteå í Svíþjóð og small þar vel inn. Á seinna tímabili sínu þar var hún markahæsti leikmaður liðsins með ellefu mörk. Svo samdi hún við Kristianstad, eins og margir aðrir íslenskir leikmenn hafa gert, og fór í skóla hjá Elísabetu Gunnarsdóttur. Hún hefur alltaf talað vel um þann skóla.

Hlín varð fljótlega mikill lykilmaður hjá Kristianstad og var hún fyrr á þessu ári seld til Leicester sem er í ensku úrvalsdeildinni. Núna er hún mætt á EM að upplifa drauminn. „Það er draumur að rætast. Ég var ekki með síðast og þetta er því nýtt fyrir mér. Ég ætla að njóta þess," sagði Hlín við Fótbolta.net á dögunum.

17. Agla María Albertsdóttir
Aldur: 25 ára
Staða: Kantur
Heimabær: Kópavogur
Uppeldisfélag: Breiðablik
Félag: Breiðablik
Fyrrum félög: Valur, Stjarnan, Häcken
Landsleikjafjöldi: 61 leikur og 4 mörk

Agla María hefur um langt árabil verið einn öflugasti leikmaðurinn í efstu deild kvenna. Hún fór að láta af sér á fótboltavellinum snemma í yngri flokkum og þegar hún gekk í raðir Vals árið 2015 sagði Ólafur Brynjólfsson, þáverandi þjálfari liðsins, að félagið væri að fá einn efnilegasta leikmanninn á landinu. Það var engin lygi.

Agla María hefur unnið allt sem hægt er að vinna í íslenska boltanum og það er eiginlega ótrúlegt að hún sé bara 25 ára miðað við allt sem hún er búin að afreka í fótboltanum til þessa. Hún er núna á leiðinni á sitt þriðja stórmót en hún var yngsti leikmaðurinn í hópnum sem fór til Hollands 2017. Hún var þá á 18. aldursári en hún hafði leikið sína fyrstu landsleiki nokkrum mánuðum áður en hópurinn valinn.

Þegar á mótið var svo komið, þá var hún í byrjunarliðinu. Það segir margt um hæfileika Öglu Maríu að hún byrjaði tvo af þremur leikjum Íslands á því móti.

Það er örugglega hægt að setja þennan frábæra kantmann í hóp með bestu leikmönnum í sögu efstu deildar núna en henni líður afar vel á Íslandi og sérstaklega í Kópavoginum hjá Breiðabliki þar sem hún er í dag fyrirliði. Hún fór í atvinnumennsku til Häcken í Svíþjóð 2022 en fann að það var ekki alveg fyrir sig og sneri aftur heim stuttu síðar. Häcken hefur verið eitt besta liðið í Svíþjóð síðustu árin.

Agla María gaf ekki kost á sér í landsliðið í nokkur verkefni fyrir EM en kom aftur inn í hópinn stuttu fyrir Evrópumótið og það er mikill styrkleiki fyrir landsliðið að hafa hana í hópnum. Í sumar hefur hún skorað fimm mörk í tíu deildarleikjum fyrir Breiðablik sem er á toppi Bestu deildarinnar; Blikar eru ríkjandi Íslandsmeistarar.

21. Hafrún Rakel Halldórsdóttir
Aldur: 22 ára
Staða: Bakvörður eða kantur
Heimabær: Mosfellsbær
Uppeldisfélag: Afturelding
Félag: Bröndby
Fyrrum félög: Afturelding/Fram, Afturelding, Breiðablik
Landsleikjafjöldi: 16 leikir og 1 mark

Hafrún Rakel ólst upp í Aftureldingu en sýndi það fljótlega að hún væri býsna efnileg í fótbolta. Hún var hluti af yngri landsliðunum og vakti mikla athygli þegar hún kom upp í meistaraflokkinn er hún var á 15. aldursári.

Hún spilaði frábærlega tímabilið 2019 með Aftureldingu í næst efstu deild og var eftir það sumar fengin í Breiðablik. Hafrún var þá 16 ára gömul og hluti af U19 landsliði Íslands. Hún kom í Breiðablik á sama tíma og Sveindís Jane Jónsdóttir, en segja má að þær hafi stimplað sig heldur betur inn hjá Þorsteini Halldórssyni, núverandi landsliðsþjálfara, það sumar.

Hafrún Rakel lék frábærlega sem bakvörður í sterku varnarliði Blika. Í byrjun árs 2021 var hún svo í fyrsta sinn valin í A-landsliðið eftir að Steini, sem hafði þjálfað hana í Breiðabliki, tók við landsliðinu. „Ég þekki Hafrúnu vel og hún er held ég framtíðar leikmaður fyrir íslenska landsliðið," sagði Steini þegar hann valdi Hafrúnu í hópinn.

Hafrún þróaði leik sinn í Blikum í nokkur ár og fékk mikla reynslu í Kópavoginum. Hún átti sitt besta tímabil þar árið 2023 og var valin í lið ársins í Bestu deildinni. Eftir tímabilið ákvað hún að söðla um og samdi við Bröndby í Danmörku þar sem hún er enn í dag. Bröndby er eitt stærsta félagið í Danmörku.

Hafrún hefur alltaf verið fjölhæfur leikmaður en síðustu ár hefur hún orðið að meiri sóknarmanni. Ef hún er að fara að koma inn í íslenska liðið á EM, þá er líklegt að hún komi á kantinn. Hún er þó líka náttúrulegur bakvörður og getur leyst stöður inn á miðjuna. Fjölhæfni hennar er mikilvæg.

22. Amanda Andradóttir
Aldur: 21 árs
Staða: Kantur eða framliggjandi miðjumaður
Heimabær: Reykjavík
Uppeldisfélag: Víkingur R. og Valur
Félag: Twente
Fyrrum félög: Fortuna Hjörring, Nordsjælland, Vålerenga, Kristianstad, Valur
Landsleikjafjöldi: 24 leikir og 2 mörk

Amanda er að koma inn í sitt annað stórmót með Íslandi. Á síðasta móti, í Englandi, var hún kjúklingurinn í liðinu. Hún er það eiginlega enn þar sem hún er bara 21 árs gömul og á eftir að sýna hvað hún getur í íslenska landsliðsbúningnum. Hún á eftir að fá almennilegt tækifæri til þess að gera það, en það mun koma.

Það var um tíma mikið hitamál hvort að Amanda myndi yfir höfuð spila með íslenska landsliðinu þar sem hún á ættir að rekja til Noregs. Og hún var kölluð inn í yngri landslið Noregs og við það skapaðist mikið umtal. En KSÍ og Steini landsliðsþjálfari brugðust hratt við og náðu að sannfæra Amöndu um að spila fyrir Ísland.

Amanda fór að vekja athygli þegar hún var 16 ára í Nordsjælland og þá var Jón Þór Hauksson, þáverandi landsliðsþjálfari, spurður út í hana. Hún samdi svo við Noregsmeistara Vålerenga og var um tíma á meðal bestu leikmanna norsku deildarinnar á táningsaldri, og á þeim tíma var komið mikið stress í íslensku þjóðina að hún myndi velja Noreg. Svo var hún valin í íslenska landsliðshópinn fyrir leik gegn Hollandi 2021. Steini hafði þá fundað með Amöndu og Andra Sigþórssyni, föður hennar, og setti spilin á borðið.

„Ég setti spilin á borðið eins og við lögðum planið upp með hana. Svo þegar það kemur í ljós að Noregur velur hana líka, þá ræddi ég við hana og sagði henni mína hlið á málum, mína skoðun og framtíðarsýn. Út frá því tekur hún ákvörðun," sagði Steini.

Amanda er gríðarlega hæfileikaríkur leikmaður sem var alltof góð fyrir íslensku deildina þegar hún kom heim í Val 2023. Hún stoppaði eðlilega ekki lengi og er núna leikmaður Twente, besta liðsins í Hollandi. Hún hefur verið að glíma við meiðsli í aðdraganda EM en fær vonandi tækifæri til að sýna tækni sína í Sviss í sumar.

23. Sveindís Jane Jónsdóttir
Aldur: 24 ára
Staða: Kantur eða striker
Heimabær: Keflavík
Uppeldisfélag: Keflavík
Félag: Angel City
Fyrrum félög: Keflavík, Breiðablik, Wolfsburg, Kristianstad
Landsleikjafjöldi: 51 leikur og 14 mörk

Það er eiginlega óhætt að fullyrða það að Sveindís Jane sé uppáhald þjóðarinnar og það á ekki bara við um fótbolta. Hún er gífurlega vinsæl og sérstaklega hjá ungu kynslóðinni. Sveindís er ein besta fótboltakona Íslands og er sóknarleikur liðsins að mörgu leyti byggður í kringum þann ótrúlega hraða sem hún býr yfir.

Sveindís er eiginlega einstakur leikmaður í heiminum því það er engin sem býr yfir sama hraða og hún. Varnarmenn eiga oft í bölvuðu brasi með að elta hana. Og ef hún ætlar að skjóta á markið eins og hún gerði í Serbíu á dögunum, þá er önnur lið í vandræðum.

Sveindís kom upp í gegnum yngri flokka Keflavíkur og má segja að hún hafi komið eins og stormsveipur inn í íslenskan fótbolta árið 2016 þegar hún skoraði 18 mörk í 14 leikjum með Keflavík í 1. deild. Það var hennar fyrsta alvöru tímabil í meistaraflokki. Hún hélt svo áfram að spila vel með Keflavík árin á eftir og var hún fengin í Breiðablik fyrir tímabilið 2020. Þar átti hún stórkostlegt tímabil og skoraði 14 mörk í 15 leikjum, en það var hennar síðasta tímabil hér á Íslandi.

Hún var besti leikmaður Íslandsmótsins 2020 og kom á þessum tíma líka inn í landsliðið. Þetta var hennar ár því hún var líka seld til þýska stórliðsins Wolfsburg. Hún var lánuð til Kristianstad þar sem hún fór í hinn margrfræga Elísabetu Gunnarsdóttur skólann sem gerði henni mjög gott. Sveindís hefur svo leikið með Wolfsburg síðustu árin en verið inn og út úr liðinu þar. Hún átt augnablik hjá Wolfsburg sem hafa vakið heimsathygli eins og til dæmis ferna í Meistaradeildinni undir lok síðasta árs.

Núna er Sveindís komin til Angel City í Bandaríkjunum og verður gaman að fylgjast með henni þar. Hún er að fara á sitt annað stórmót með Íslandi en segja má að hún hafi orðið algjör stjarna á síðasta móti. Heimurinn tók eftir henni þar. Núna er komið að töku tvö á þessu stóra sviði fyrir uppáhalds fótboltakonu þjóðarinnar.

Leikir Íslands á EM 2025:
2. júlí, Ísland - Finnland
6. júlí, Ísland - Sviss
10. júlí, Ísland - Noregur
Athugasemdir