Thiago Silva hefur reynst mikilvægur hlekkur í liði Chelsea frá komu sinni frá PSG fyrir rétt rúmum tveimur árum síðan.
Þessi brasilíska goðsögn hefur miklar mætur á liðsfélaga sínum, enska hægri bakverðinum Reece James.
James hefur verið feykilega öflugur hjá Chelsea og er meðal bestu leikmanna liðsins. Hann er sterkur, snöggur og öflugur varnarlega auk þess að vera gríðarlega hættulegur sóknarlega, bæði með hnitmiðuðum bylmingsskotum sínum og frábærum fyrirgjöfum.
Chelsea rúllaði yfir Ítalíumeistara AC Milan nokkuð þægilega í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í vikunni og var Silva kátur að leikslokum.
„Reece er mjög ungur en það er eins og hann hafi spilað fótbolta í fleiri áratugi. Hann er frábær náungi og virkilega góður fótboltamaður, hann leggur mikla vinnu á sig á æfingum og á skilið að ná árangri," sagði Silva.
„Ef hann heldur áfram að spila svona vel og verður áfram með jákvætt hugarfar þá getur hann orðið einn af bestu hægri bakvörðum sögunnar. Hann hefur allt sem þarf til þess."
Silva var einnig spurður út í nýja stjórann Graham Potter og sagðist vera ánægður með byrjunina hans hjá félaginu.