mán 10. ágúst 2020 14:03
Magnús Már Einarsson
Logi Ólafs: 17 partýsmit sem höfðu mjög mikil áhrif
Bjartsýnn á að spila verði á mánudag
Logi Ólafsson.
Logi Ólafsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er gott að fá heimaleik. Það er bara einn leikur og það gæti aukið möguleikana á að komast áfram," sagði Logi Ólafsson, þjálfari FH, í viðtali við Guðmund Hilmarsson á Facebook félagsins eftir að ljóst var að liðið mætir Dunajska Streda frá Slóvakíu í Evrópudeildinni.

Finnsku liðin Honka Espoo og Ilves Tampere voru einnig mögulegir mótherjar FH.

„Sennilega eru finnsku liðin tvö slakari andstæðingur en þessi en það er líka oft gott að hafa mótherjann betri og menn komi á tánum inn í svona verkefni," sagði Logi.

Óvíst er með framhaldið í fótboltanum á Íslandi en ekkert hefur verið leikið hér á landi síðan 30. júlí vegna kórónuveirunnar.

„Við undirbúum okkur þannig að við reiknum með að það verði leikur um næstu helgi en tíminn verður að leiða það í ljós," sagði Logi.

FH á að mæta Stjörnunni næstkomandi mánudag og Logi vonast til að sá leikur fari fram.

„Ég er bjartsýnn á það. Mér skilst á þeim sem til þekkja að það hafi verið góð von um daginn en þá komu 17 partýsmit úr Vestmannaeyjum og Reykjavík sem ég tel að hafi haft mjög mikil áhrif. Meðan við höldum þessu áfram í fáum smitum á hverjum sólarhring þá hef ég trú á því að þetta verði leyft."

Hér að neðan má hlusta á viðtalið í heild sinni.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner