mið 11. mars 2015 13:00
Magnús Már Einarsson
Hver er uppruni orðsins haffsent?
Svar við fyrirspurn í sérfræðingahorni Fótbolta.net
Gunnar Sigurðarson sá um að svara.
Gunnar Sigurðarson sá um að svara.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pýramídi Preston.
Pýramídi Preston.
Mynd: Gunnar Sigurðarson
Fótbolti.net hefur opnað sérfræðingahorn á síðunni þar sem lesendur geta sent inn fyrirspurnir um allt sem tengist fótbolta á einhvern hátt.

Jóhann Knútur Karlsson kom með spurningu sem Gunnar Sigurðarson, Gunnar á Völlum, sá um að svara.

Hver er uppruni orðsins hafsent?

Uppruni orðsins
Þar sem engar heimildir er að finna um merkingu orðsins haffsent í íslensku má draga þá ályktun að orðið hafi fyrst og fremst verið tökuorð úr enskri tungu. Með tímanum breyttist staða haffsents frá því að vera á miðjunni yfir í að vera miðjan í vörninni. Að sama skapi breyttist heiti stöðunnar frá því að vera haffsent (e. Center Half) yfir í að vera miðvörður (e. Center Back). Þrátt fyrir þessa breytingu hélts enska heitið (e. Center Half) í tungumáli Englendinga og er í einstökum tilfellum enn notað í dag. Sömu sögu má segja um tökuorðið haffsent / hafsent í íslensku. Hægt er að rekja heimildir um orðið, í íslenskum tímaritum og blöðum, frá árinu 1970. Frá árinu 1984 fór að bera á því að íslenskir blaðamenn slepptu einu effi í orðinu haffsent og notuðust við orðið hafsent.
Staða haffsents
Á síðustu áratugum 19. aldar stillti hið sögufræga knattspyrnulið Preston North End liði sínu upp á þann hátt að leikskipulagið myndaði pýramída.. Pýramídi Preston var nokkuð frábrugðinn þeim pýramída sem flestir þekkja í nútímaliðsuppstillingu knattspyrnuliða.

Pýramídi Preston var á þann hátt að fyrir framan markvörð voru tveir miðverðir (e. Center Back). Á miðjunni voru þrír leikmenn. Einn vinstra megin (e. Left Half) einn hægra megin (e. Right Half) og á milli þeirra var haffsentinn staðsettur (e. Center Half).

Mikil áhersla er lögð á sóknarleikinn í þessari liðsuppstillingu en framlínan var skipað fimm leikmönnum. Einn fremstur (e. Center Forward), tveir skipuðu stöðu innri framherja, (e. Inside Forward) og þar rétt fyrir aftan vængmenn (e. Winger).

Þessi liðsuppstilling Preston er talin vera sú fyrsta sem fór frá einstaklingsframtakinu yfir í að leikmenn léku sín á milli með skipulögðum hætti. Miðjumennirnir voru í lykilhlutverki varnarlega þar sem hægri miðja og vinstri miðja gengdu því hlutverki að sjá um innri framherja andstæðings.

Hlutverk haffsentsins var enn mikilvægara. Varnarlega sá hann um að stoppa fremsta leikmann andstæðinganna og að auki bar hann uppi sóknarleikinn uppi, sá um að skipuleggja sóknir og koma boltanum á framherja sína.

Þessi liðsuppstilling, pýramídi Preston, gerði það að verkum að Preston North End er eitt sögufrægasta lið ensku knattspyrnunnar. Árið 1889 vann liðið tvennunna, meistara- og bikarmeistaratitlill, fyrst allra liða.

Svo vinsælt þótti þetta leikskipulag að hvert liðið á fætur öðru tók það upp og var það ríkjandi leikskipulag enskra liða í tæp 30 ár eða þar til reglum um rangstæðu var breytt.

Með tímanum þróaðist liðsuppstilling með meiri áherslu á varnarleik. Staða haffsentis (e. Center Half) breyttist meðal annars í að hann skipaði hjarta varnarinnar en þrátt fyrir að enska heitið hafi einnig tekið breytingum frá haffsent (e. Center Half) yfir í miðvörð (e. Center Back) þá, eins og áður um getur, afmáðist ekki orðið haffsent (e. Center Half) ekki úr enskri tungu.
Athugasemdir
banner
banner
banner