
Thelma Karen Pálmadóttir var valinn efnilegasti leikmaður Bestu-deildar kvenna um síðastliðna helgi. Nú er hún stödd í Belfast í sínu fyrsta landsliðsverkefni og verður í hópnum þegar Ísland mætir Norður Írlandi í fyrri leik liðanna í umspili Þjóðadeildarinnar annað kvöld.
Thelma er einungis fædd árið 2008 en stóð sig afar vel með FH í sumar og var máttarstólpur í liðinu sem tryggði sér annað sætið og verður því í Evrópukeppni á næsta tímabili.
Thelma lék 23 leiki með FH í deildinni í sumar og skoraði í þeim átta mörk, ásamt því skoraði hún bæði mörk FH í tapi liðsins í úrslitum Mjólkurbikarsins þar sem FH tapaði gegn Breiðabliki, 3-2.
Fótbolti.net ræddi við Thelmu um Evrópusæti FH og framtíð hennar á Íslandi á hóteli landsliðsins í Belfast í gær.
„Að ná þessu Evrópusæti er ótrúlega stórt, stórt fyrir félagið, okkur stelpurnar og allt starfsteymið. Þetta var markmið hjá okkur og það var mjög ánægjulegt að ná því.“
Hafa lið erlendis nálgast þig og sýnt áhuga?
„Það hefur verið áhugi, en ég þarf að velja rétt. Það gæti alveg verið að ég verði ennþá heima eða fari út, það kemur bara í ljós.“
Ekkert búin að ákveða neitt?
„Nei, svosem ekki,“ sagði Thelma.