Santos, Baleba, Wharton, Anderson, Gallagher og Stiller á lista Man Utd - Rashford vill ganga alfarið í raðir Barcelona
   fös 24. október 2025 10:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Getur spilað í fimm ár í viðbót en horfir líka til Toni Kroos
'Ég einbeitti mér meira að því og fann aftur gleðina fyrir fótbolta'
'Ég einbeitti mér meira að því og fann aftur gleðina fyrir fótbolta'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég elska leikinn það mikið'
'Ég elska leikinn það mikið'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég þarf aðeins að ræða við fjölskylduna, mitt fólk, um hvað ég vil gera'
'Ég þarf aðeins að ræða við fjölskylduna, mitt fólk, um hvað ég vil gera'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Hann hætti á stærsta sviðinu og ég ber mikla virðingu fyrir því'
'Hann hætti á stærsta sviðinu og ég ber mikla virðingu fyrir því'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Sneri til baka eftir meiðsli í júlí. 'Erfitt að reyna brjóta sér leið inn í liðið um mitt sumar '
Sneri til baka eftir meiðsli í júlí. 'Erfitt að reyna brjóta sér leið inn í liðið um mitt sumar '
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þegar ég sá að ég væri ekki að fá eins margar mínútur og ég vildi, þá fór ég í að hjálpa mönnum bakvið tjöldin'
'Þegar ég sá að ég væri ekki að fá eins margar mínútur og ég vildi, þá fór ég í að hjálpa mönnum bakvið tjöldin'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pablo Punyed er að verða samningslaus hjá Víkingi eftir fimm tímabil hjá félaginu. Hann kom fyrir tímabilið 2021 og var lykilmaður í Íslands- og bikarmeistaraliði félagsins. Síðan hafa bæst við fjórir stórir titlar.

Fótbolti.net ræddi við Pablo í gær eftir að hann kláraði kennslu í NÚ íþróttaskólanum í Hafnarfirði. Hann hefur verið þar í fjögur og er mjög ánægður í því starfi.

Pablo var í skemmtilegu viðtali hjá Jóa Skúla í Draumaliðinu fyrr í mánuðinum og fór yfir ferilinn til þessa. Fréttaritari hjó eftir því að Pablo talaði talsvert um að hann hefði lært af hinum og þessum þjálfurum og var hann því spurður hvort að hugurinn væri farinn að leita út í þjálfun.

„Það er einn möguleikinn að ég fari í þjálfun í vetur. Ég vil þjálfa, sé mikil líkindi í því að þjálfa og kenna, þess vegna fór ég í kennslu. Það er alveg í myndinni að fara í þjálfun," segir Pablo.

Það er einn leikur eftir af tímabilinu, leikur gegn Val á morgun. Hvað gerist svo hjá Pablo?

„Ég fer í frí og hugsa mín mál, ég þarf aðeins að ræða við fjölskylduna, mitt fólk, um hvað ég vil gera. Þetta er ekki orðið ljóst á þessum tímapunkti, en gæti verið orðið skýrara eftir helgi. Ég er bara að njóta núna. Síðustu ár hafa verið mikill lærdómur hjá mér, og á mörgum sviðum."

Mun alltaf spila áfram
Hvað langar þig að gera, taka eitt tímabil í viðbót, eða meira jafnvel?

„Mér líður það vel að ég gæti þess vegna spilað fimm ár í viðbót. Ég vakna og ég er tilbúinn að fara út að skokka, ég finn ekki fyrir neinum sársauka í líkamanum, get æft daglega og finnst ég hafa æft rosalega vel á síðustu mánuðum. En á sama tíma horfi ég til Toni Kroos, hann hætti á stærsta sviðinu og ég ber mikla virðingu fyrir því."

„Það þarf ekki alltaf að vera þannig að maður spilar alveg þangað til líkaminn segir manni að hætta. Í hreinskilni líður mér líka þannig að ég gæti hætt bara í dag. Ég mun alltaf spila áfram, þó að það væri kannski ekki í efstu deildum, ég sé mig alveg spila áfram í sjö manna bolta, fimmtu deild eða hvað sem það væri. Ég elska leikinn það mikið. Þetta á bara eftir að koma í ljós."


Ólíklegt að hann verði áfram hjá Víkingi
Pablo hefur rætt við Kára Árnason, sem er yfirmaður fótboltamála, og þjálfarann Sölva Geir Ottesen hjá Víkingi og það er mjög ólíklegt að hann taki annað tímabil hjá Víkingi.

„Ég hef rætt við Kára, Sölva og fleiri Víkinga. Ég skoða allt sem kemur, þeir eru búnir að gefa mér leyfi til að skoða allt sem kemur til mín. Ég er bara þolinmóður núna. Það getur allt gerst, en eins og staðan er í dag þá er mjög ólíklegt að ég verði áfram leikmaður Víkings."

Fann aftur gleðina fyrir fótbolta í nýju hlutverki
Pablo sleit krossband í júlí 2024 og var frá í heilt ár vegna meiðslanna. Hann kom aðeins inn í lið Víkings um mitt sumar en varð svo að gera sér það að góðu að vera talsvert utan hóps áður en hann kom svo við sögu í síðasta leik gegn Breiðabliki.

„Það er erfitt að reyna brjóta sér leið inn í liðið um mitt sumar á meðan mótið er í gangi. Við erum með best mannaða lið deildarinnar. Þegar ég sá að ég væri ekki að fá eins margar mínútur og ég vildi, þá fór ég í að hjálpa mönnum bakvið tjöldin - spjalla við leikmenn og gefa þeim ráð. Ég einbeitti mér meira að því og fann aftur gleðina fyrir fótbolta. Ég fann fyrir auknu sjálfstrausti og þær mínútur sem ég spilaði fannst mér ég spila ágætlega. Ég vil alltaf spila meira, en það er ekki í mínum höndum. Ég þurfti að sætta mig við það hlutverk sem ég var settur í og gerði mitt besta í því."

Varstu nálægt því að fara í glugganum?

„Mér var ekki hleypt í burtu."

Þig langaði að fara?

„Ekkert endilega. Svarið mitt er, og var líka fyrir tveimur mánuðum, að ég vil vera áfram í Víkinni, en það er ekki alltaf möguleiki."

Kirsuberið á kökuna
Ef leikurinn á laugardaginn verður kveðjuleikur, hvernig líður þér með það?

„Er það ekki bara fínn leikur til að enda á ef það er síðasti leikurinn? Skjöldur á loft, medalía og spilað fyrir framan stuðningsmennina í Víkinni. Ég held að það verði þvílíkt partí á laugardaginn."

„Ég er rosalega glaður að leikurinn var færður yfir á laugardag. Við erum að fara spila á móti sterku liði Vals sem endar í 2. sæti. Ef þetta verður síðasti leikurinn mig þá er það bara kirsuberið ofan á kökuna á tímann minn í Víkingi."


Hefði aldrei getað ímyndað sér þessa velgengni
Hvernig gerir Pablo upp þessi fimm tímabil með Víkingi?

„Ég er bara glaður. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að það myndi ganga svona vel frá fyrsta degi. Sem betur fer var klúbburinn með þá stefnu að breyta umhverfinu og kúltúrnum. Í dag er Víkingur orðinn stærsti klúbbur á Íslandi og það var ekki þannig þegar ég mætti fyrir fimm árum."

„Ég er þakklátur fyrir öll tækifærin, en á sama tíma hefði ég viljað taka þátt í miklu meira með liðinu, en meiðsli settu strik í reikninginn. Það var erfitt að missa af úrslitaleikjunum í fyrra og Evrópuleikjunum síðasta vetur. Ég get sætt mig við að tapa leik, en mér finnst mjög erfitt að geta ekki tekið þátt í leikjunum,"
segir Pablo.

Það er ljóst að hann er talsvert eftirsóttur og margir möguleikar sem standa honum til boða. Pablo er 35 ára miðjumaður sem kom fyrst til Íslands árið 2012 og hefur sett mikinn svip á íslenskan fótbolta.
Athugasemdir
banner
banner