Liverpool hefur áhuga á Gordon - Það gæti bundið enda á vonir Arsenal um að fá Isak
   þri 11. apríl 2023 15:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Óvíst hvar FH mætir Stjörnunni sem vill ekki víxla á heimaleikjum
Völlurinn lítur ekki alveg svona út í dag.
Völlurinn lítur ekki alveg svona út í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH á heimaleik gegn Stjörnunni á laugardag og leikurinn er eins og er enn skráður á Kaplakrikavöll. Það er þó ljóst að ekki verður spilað á þeim velli en þetta staðfesti Davíð Þór Viðarsson, sem er yfirmaður Fótboltamála hjá FH, við Fótbolta.net í dag.

„Við erum núna í þeim fasa að taka ákvörðun um hvar við spilum, Kaplakrikavöllur er ekki orðinn nægilega góður svo þessi leikur geti farið fram á honum. Þessi leikur er að koma aðeins of snemma fyrir þennan annars frábæra grasvöll. Við erum búnir að vera í sambandi við Stjörnuna og það lítur út fyrir að þeir hafi ekki áhuga á því að skipta á heimaleikjunum. Við erum bara að athuga hvað við getum gert, við erum með Miðvöllinn - frjálsíþróttavöllinn sem er varavöllurinn okkar. Það yrði ýmislegt sem þyrfti að gera til að sá völlur myndi uppfylla skilyrði varðandi sæti í stúku og svoleiðis," sagði Davíð.

Hann segir að það komi til greina að leikurinn færi fram í öðru bæjarfélagi. „Já, það kemur til greina og eitthvað sem við munum skoða. Við þurfum að finna einhverja lausn og ef eina lausnin verður að fara með leikinn einhvert annað þá verðum við að gera það. Þetta þarf víst að spilast."

En skilur hann afstöðu Stjörnunnar að vilja ekki skipta á heimaleikjum?

„Síðast þegar ég var í samskiptum við þá, fyrir helgina, þá var svarið nei. Við tökum örugglega símtalið aftur ef okkur finnst möguleikar hér hjá okkur ekki vera í lagi. Ég skil alveg að Stjarnan vilji ekkert endilega víxla á leikjum. En aðstæður eru eins og þær eru og ef völlurinn okkar er alveg svolítið frá því að vera tilbúinn þá eru allir aðrir grasvellir á landinu það líka. Mér fyndist allt í lagi að félög myndu sýna því skilning af því mótið byrjar þetta snemma. En þetta er þeirra ákvörðun og ég get ekki haft áhrif á hana. Að sjálfsögðu mun það koma niður á gæðum leiksins ef hann verður spilaður á lélegum grasvelli."

Davíð er bjartsýnn á að Kaplakrikavöllur verði tilbúnn 28. apríl þegar KR kemur í heimsókn.

ÍBV átti að spila á heimavelli í komandi umferð en víxlaði á heimaleikjum við KA og því fer sá leikur fram á Greifavelli á laugardag. Keflavík er einnig með grasvöll sem sinn aðalvöll en leikur liðsins gegn KR í komandi umferð mun fara fram á gervigrasinu fyrir utan Nettó-höllina í Reykjanesbæ.
Athugasemdir
banner
banner