Grealish samþykkir að fara til Everton - Guehi er til sölu fyrir rétt verð - Milan í viðræðum um Höjlund
   mán 11. ágúst 2025 18:00
Ívan Guðjón Baldursson
Lítur út fyrir að Isak verði áfram í Newcastle
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Viðræður á milli Liverpool og Newcastle United um félagaskipti Alexander Isak ganga hægt þessa dagana eftir að Newcastle hafnaði fyrsta kauptilboðinu frá Englandsmeisturunum.

Það tilboð hljóðaði upp á 110 milljónir punda en talið er að Newcastle vilji fá 150 milljónir til að selja Isak.

Isak vill ólmur skipta um félag og hefur beðið um að vera seldur frá félaginu en það lítur sífellt meira út fyrir að hann neyðist til að vera um kyrrt.

Þó að Liverpool leggi fram nægilega gott tilboð þá hefur Newcastle gefið þau skilaboð frá sér að félagið mun ekki selja Isak fyrr en annar framherji er fundinn til að fylla í skarðið sem myndast.

Isak og William Osula eru einu framherjarnir í leikmannahópi Newcastle sem stendur. Félagið er í leit að öðrum sóknarleikmanni til að auka breiddina í hópnum.

Það er þó hægara sagt en gert að finna hæfan framherja á leikmannamarkaðinum í dag og er ekkert félag sem veit það betur heldur en Newcastle, sem er búið að missa af átta leikmönnum það sem af er sumars.

Félagið reyndi við Liam Delap og Joao Pedro sem fóru báðir til Chelsea á meðan Benjamin Sesko valdi Manchester United frekar. Það eru því ekki margir kostir eftir á markaðinum.

Ljóst er að Isak þarf að koma hugarfarinu sínu í lag ef hann verður ekki seldur á næstu vikum. Ef hann verður áfram hjá Newcastle mun hann hafa verðugt verkefni fyrir höndum sér þegar kemur að því að endurheimta ást stuðningsmanna sem eru mjög ósáttir með hegðun Svíans.
Athugasemdir
banner
banner