Daniel Farke þjálfari Leeds United var hress eftir skemmtilegt sex marka jafntefli gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni um helgina.
Öll mörkin voru skoruð í seinni hálfleiknum og hefur Farke fengið mikið hrós fyrir frammistöðu Leeds í síðustu leikjum.
Það eru aðeins nokkrir dagar liðnir síðan fjölmiðlar á Englandi sögðu þjálfarastarf Farke vera í hættu en stjórnendur Leeds virðast hafa skipt um skoðun eftir magnaða frammistöðu í vikunni.
Lærlingar Farke töpuðu naumlega gegn Manchester City og unnu svo 3-1 gegn Chelsea áður en þeir náðu jafntefli við ríkjandi Englandsmeistara.
Lærlingar Farke lentu tveimur mörkum undir á heimavelli en náðu að koma til baka og jafna að lokum metin í uppbótartíma eftir að gestirnir höfðu endurheimt forystuna.
Seinna jöfnunarmark Leeds kom eftir hornspyrnu í uppbótartíma, en það er í tíunda sinn sem Liverpool fær mark á sig eftir fast leikatriði á fyrri hluta tímabils.
„Við leggjum mikinn metnað í föst leikatriði, við vitum að við erum með stóra og sterka leikmenn sem geta skapað hættu og skorað mörk. Við verjum miklum tíma á æfingasvæðinu í að æfa föst leikatriði og það er að skila sér. Það er mjög mikilvægt að vera góðir úr föstum leikatriðum þegar maður spilar við andstæðinga sem halda boltanum 80% af leiknum," sagði Farke eftir jafnteflið.
„Það er erfitt að vinna menn eins og (Virgil) Van Dijk og (Ibrahima) Konaté í loftinu en við erum sterkir og með mikið sjálfstraust.
„Þetta var annað kvöld á Elland Road sem er töfrum líkast, stuðningsmenn voru svo háværir og virkir í leiknum. Stemningin hérna var sú besta í heimi. Við spiluðum frábæran leik og ég man ekki eftir einu skoti sem Lucas Perri þurfti að verja. Við vorum orkumiklir og gerðum vel að undanskildum tveimur mistökum þegar við hjálpuðum þeir að skora mörkin sín.
„Ég er mjög ánægður með hugarfar strákanna, þeir gefast aldrei upp. Þeir eru alltaf tilbúnir til að halda áfram að berjast sama hver staðan er, þeir hafa sannað það í þessari viku. Þeir eiga risastórt hrós skilið."
Athugasemdir



