Það er nóg um að vera í ítalska boltanum í dag þar sem Genoa heimsótti Udinese og skóp sigur.
Mikael Egill Ellertsson var ónotaður varamaður í sigrinum þrátt fyrir að hafa átt góðan leik í síðustu umferð. Ruslan Malinovskyi og Brooke Norton-Cuffy skoruðu mörk Genoa í 1-2 sigri.
Norton-Cuffy gerði sigurmarkið á 83. mínútu eftir nokkuð jafnan slag. Þetta er annar sigurinn í röð hjá Genoa sem er komið fjórum stigum fyrir ofan fallsvæðið, með 14 stig eftir 14 umferðir. Fjórum stigum á eftir Udinese.
Fyrr í dag vann Parma nauman sigur á nýliðum Pisa þar sem Adrian Benedyczak skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu. Pisa var talsvert sterkari aðilinn en tókst ekki að skora framhjá Edoardo Corvi markverði.
Parma er með 14 stig eins og Genoa, fjórum stigum fyrir ofan Pisa sem situr í fallsæti.
Torino tekur á móti AC Milan í lokaleik dagsins í Serie A deildinni. Það fóru þó leikir fram í B og C-deildum ítalska boltans þar sem Íslendingar voru í byrjunarliðum.
Bjarki Steinn Bjarkason lék fyrri hálfleikinn í jafnteflisleik hjá Venezia gegn Avellino í B-deildinni. Feneyingar eru í fjórða sæti eftir jafnteflið, með 26 stig eftir 15 umferðir.
Í C-deildinni lék Kristófer Jónsson allan leikinn í tapi hjá botnliði Triestina.
Udinese 1 - 2 Genoa
0-1 Ruslan Malinovskyi ('34 , víti)
1-1 Jakub Piotrowski ('65 )
1-2 Brooke Norton-Cuffy ('83 )
Pisa 0 - 1 Parma
0-1 Adrian Benedyczak ('40 , víti)
Rautt spjald: M'Bala Nzola, Pisa ('90)
Avellino 1 - 1 Venezia
Giana Erminio 2 - 1 Triestina
Athugasemdir



