Fótboltasérfræðingurinn Jamie Carragher, fyrrum leikmaður og ævilangur stuðningsmaður Liverpool, var harðorður í garð Mohamed Salah í útsendingu Sky Sports í kvöld.
Carragher er mjög ósáttur með viðtal sem Salah gaf eftir að hafa verið ónotaður varamaður í 3-3 jafntefli Liverpool gegn Leeds United um helgina.
Carragher telur að Salah hafi skipulagt viðtalið fyrirfram með aðstoð frá umboðsmanni sínum í tilraun til að láta reka Arne Slot þjálfara.
„Þetta sem hann gerði eftir leikinn er gjörsamlega til skammar. Einhverjir tala um þetta sem tilfinnaríkt viðtal manns sem er í uppnámi en ég trúi því ekki," sagði Carragher.
„Í hvert skipti sem Mo Salah stoppar í blandaða svæðinu í leikmannagöngunum þá er það skipulagt. Hann hefur stoppað fjórum sinnum þarna á átta árum hjá Liverpool. Þetta er eitthvað sem hann hefur skipulagt í þaula ásamt umboðsmanni sínum til að valda sem mestum usla og í tilraun til að styrkja stöðu sína. Hann valdi þennan leik til að tjá sig, ég held að hann hafi verið að bíða eftir neikvæðum úrslitum hjá Liverpool til að láta þessi orð falla.
„Liðið fær jöfnunarmark á sig á síðustu mínútu leiksins og öllum tengdum Liverpool líður ömurlega með það. Það er stundin sem hann valdi til að ráðast á þjálfarann og mögulega reyna að láta reka hann. Þetta er til skammar."
Salah var á bekknum í þriðja leiknum í röð gegn Leeds og var það í annað sinn í þessum þremur leikjum sem hann fékk ekki að spreyta sig. Eftir lokaflautið talaði hann um að sér hafi verið hent undir rútuna, honum liði eins og Liverpool væri að nota hann sem blóraböggul eftir slæmt gengi undanfarinna vikna.
„Liverpool tók rétta ákvörðun að taka hann úr leikmannahópinum fyrir leikinn gegn Inter. Ég veit ekki hvort hann muni spila aftur fyrir Liverpool, en ég vona það. Hann er einn af bestu leikmönnum í sögu félagsins. En ef hann heldur áfram að tjá sig með þessum hætti þá er aldrei að vita hvernig arfleifð hans verður."
08.12.2025 07:30
Salah: Liverpool gaf mér mörg loforð síðasta sumar
Athugasemdir




