Brasilíski markvörðurinn Alisson Becker sat með á fréttamannafundi fyrr í kvöld þar sem hann og Arne Slot voru spurðir aðeins út í leikinn gegn Inter annað kvöld og mjög mikið út í viðtal sem Mohamed Salah gaf um helgina.
Alisson kom liðsfélaga sínum Salah, sem hefur verið einn allra besti leikmaður Liverpool í tæpan áratug, til varnar en var á sama tíma sammála Slot þjálfara.
„Þetta er ekki auðveld staða fyrir okkur en við reynum að takast á þetta eins vel og við getum. Við leikmenn eigum í mjög góðu sambandi við Mo, ég hef spilað með honum allan tímann sem ég hef verið í Evrópu - eitt ár hjá Roma og átta ár hjá Liverpool," sagði Alisson.
„Hann er æðislegur náungi með frábæran persónuleika og hann er goðsögn hjá Liverpool FC. Við höfum afrekað svo margt saman. Þetta er ekki skemmtileg staða sem er komin upp en við munum komast í gegnum þetta. Núna fer einbeitingin okkar á leikinn gegn Inter á morgun."
Salah fer ekki með Liverpool til Ítalíu. Hann er í skammarkróknum eftir að hafa farið í fyrrnefnt viðtal.
„Þetta er bara afleiðing þess sem hann gerði. Hann veit það alveg sjálfur. Ég á í góðum samskiptum við Mo en við eigum eftir að ræða þetta atvik, ég vil gefa honum smá tíma. Hann er ekki bara liðsfélagi minn og þó að við eyðum ekki miklum tíma saman utan æfingasvæðisins þá erum við góðir vinir. Við deilum mögnuðum minningum, bæði jákvæðum og neikvæðum. Við höfum myndað sterk tengsl í gegnum tímann og ég mun tala við hann um þetta en það verður einkasamtal."
Alisson telur leikmannahópinn vera samheldinn þrátt fyrir þetta viðtal hjá Salah og slæm úrslit síðustu vikna.
„Leikmenn eiga eftir að vera búnir að mynda sínar eigin skoðanir á öllu þessu máli og það er allt í lagi. Hópurinn hefur aldrei verið samheldnari, við erum staðráðnir í því að bæta okkar frammistöðu á vellinum. Við vitum að við þurfum að gera betur, það er ekkert leyndarmál. Það skiptir ekki máli hvernig okkur líður persónulegea, við viljum mæta til leiks á morgun og vinna sem liðsheild."
Alisson segist ekki vita hvern Mo var að tala um þegar hann sagði að sér hafi verið 'hent undir rútuna' hjá Liverpool.
„Ég veit ekki hvað gerist í framtíðinni og ég held að þið verðið að spyrja Mo sjálfan út í þessi ummæli. Ég persónulega vona að hann spili aftur fyrir Liverpool. Þetta mál er á milli hans og Liverpool, við erum áfram liðsfélagar hans og vinir og óskum honum alls hins besta í þessu máli. Sem leikmenn Liverpool þá viljum við líka það sem er best fyrir félagið, við viljum að það verði fundin góð lausn fyrir alla aðila."
Athugasemdir



