'Evrópa er frábær viðbót ofan á það og að fá tækifæri til að upplifa það með uppeldisklúbbnum er eiginlega draumur og sérstakur áfangi á ferlinum'
Þórður Gunnar Hafþórsson gekk í lok síðasta mánaðar aftur í raðir Vestra eftir sex tímabil á höfuðborgarsvæðinu. Þórður Gunnar er uppalinn fyrir vestan en hélt í borgina eftir tímabilið 2019.
Hann er 24 ára kantmaður sem kemur til Vestra frá Aftureldingu. Vestri, sem er ríkjandi bikarmeistari, verður í Lengjudeildinni en tekur líka þátt í forkeppni Evrópudeildarinnar næsta sumar.
Þórður ræddi um endurkomuna í Vestra.
Hann er 24 ára kantmaður sem kemur til Vestra frá Aftureldingu. Vestri, sem er ríkjandi bikarmeistari, verður í Lengjudeildinni en tekur líka þátt í forkeppni Evrópudeildarinnar næsta sumar.
Þórður ræddi um endurkomuna í Vestra.
„Það leggst gríðarlega vel í mig að vera orðinn leikmaður Vestra aftur og er ég mjög spenntur fyrir komandi tímabili. Það sem heillaði mig mest er að mér finnst vera spennandi tímar í vændum fyrir vestan. Það að geta hjálpað Vestra að komast upp í efstu deild aftur og ná árangri í Evrópu var líka eitthvað sem mig langar að taka þátt í."
„Lykillinn af því að þetta gekk upp var að ég átti virkilega gott spjall við Samma (formann) og Daníel Badu (þjálfara), sem heillaði mig mikið, en ég fann að ég og félagið vorum á sama stað í hugsun."
„Fyrir ári síðan var ég alveg nálægt því (að fara í Vestra) en það hentaði mér ekki þá."
„Það var alveg séns að vera áfram í Aftureldingu, en þegar ég fann hvað mig langaði aftur vestur þá var það einföld ákvörðun, þótt það hafi verið mjög erfitt að fara frá Aftureldingu," segir Þórður Gunnar.
Hvernig var tíminn í Aftureldingu?
„Ég á margar góðar minningar frá Aftureldingu og mér fannst hópurinn og klúbburinn skemmtilegur, en ég hefði klárlega viljað spila meira og bjóst við stærra hlutverki. En ég kem þaðan reynslunni ríkari bæði sem leikmaður og einstaklingur."
Hver eru markmiðin með Vestra?
„Markmiðin eru að komast upp í deild þeirra Bestu og ná árangri í Evrópu."
Talandi um Evrópu, hefur sú staðreynd að Vestri sé að fara spila Evrópuleiki áhrif á ákvörðun þína að fara aftur vestur?
„Það er klárlega spennandi að Vestri sé í Evrópu á næsta ári, það er ekki á hverjum degi sem maður fær tækifæri til að spila Evrópuleiki og það vegur klárlega með í ákvörðuninni."
„En það var ekki aðalástæðan, hún snerist meira um félagið sjálft, fólkið og verkefnið. Evrópa er frábær viðbót ofan á það og að fá tækifæri til að upplifa það með uppeldisklúbbnum er eiginlega draumur og sérstakur áfangi á ferlinum," segir Þórður Gunnar.
Athugasemdir


