Hvert fer Salah? - Wharton vill Meistaradeild - Ederson til Liverpool eða Barca - Arsenal og Real berjast um Yildiz
banner
   mán 08. desember 2025 16:25
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Komið að tímamótum eftir 15 ár - „Ekki auðveld ákvörðun og ótrúlega erfitt að kveðja"
Kvenaboltinn
'Ég hef lagt allt mitt í Keflavík síðustu 15 ár'
'Ég hef lagt allt mitt í Keflavík síðustu 15 ár'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það mikilvægasta fyrir mig er að finna félag sem hentar mér og þar sem ég get notið þess að spila'
'Það mikilvægasta fyrir mig er að finna félag sem hentar mér og þar sem ég get notið þess að spila'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það var samt eitthvað sem að togaði í mig að taka eitt tímabil í viðbót með stelpunum í Keflavík'
'Það var samt eitthvað sem að togaði í mig að taka eitt tímabil í viðbót með stelpunum í Keflavík'
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
„Mér fannst komið að ákveðnum tímamótum hjá mér í Keflavík. Ég hef lagt allt mitt í Keflavík síðustu 15 ár og er mjög þakklát fyrir þann tíma en eins og ég segi þá fannst mér komið að ákveðnum tímamótum."

Þetta segir Kristrún Ýr Holm, fyrrum fyrirliði Keflavíkur, sem ákvað á dögunum að yfirgefa félagið.

Hún er nú án félags en ætlar að spila áfram. Kristrún er þrítugur varnarmaður og á að baki 273 KSÍ leiki. Alla leikina hefur hún spilað með Keflavík, þann fyrsta 2011 og í leikjunum 273 hefur hún skorað 13 mörk.

Hvað langar þig að gera?

„Ég er spennt fyrir því að halda áfram að spila og finna félag sem hentar mér vel. Ég á mikið inni og hef auðvitað mikinn metnað til að spila á sem hæsta leveli þannig að efsta deildin er klárlega eitthvað sem ég horfi til en ég er opin fyrir ýmsu."

„Það mikilvægasta fyrir mig er að finna félag sem hentar mér og þar sem ég get notið þess að spila."


Keflavík féll úr Bestu deildinni 2024 og ætlaði sér upp úr Lengjudeildinni 2025. Það gekk alls ekki eftir og endaði liðið í 8. sæti deildarinnar.

Hvernig lítur þú til baka á tímabilið 2025?

„Tímabilið í ár var því miður vonbrigði en það væru enn meiri vonbrigði ef maður tæki ekkert lærdómsríkt með sér. Þrátt fyrir erfiðleika var margt jákvætt, sérstaklega fyrir yngri leikmenn sem voru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki og fengu mikilvægan spilatíma og reynslu."

Kristrún var orðuð í burtu frá Keflavík eftir tímabilið 2024, m.a. við Stjörnuna, en hún hélt tryggð við uppeldisfélagið.

„Já, ég hugsaði að skipta um umhverfi í fyrra og nokkur lið höfðu áhuga. Það var samt eitthvað sem að togaði í mig að taka eitt tímabil í viðbót með stelpunum í Keflavík."

Nú er hins vegar komið að því að leiðir skilja.

Er erfitt að fara frá Keflavík?

„Já, þetta var ekki auðveld ákvörðun og ótrúlega erfitt að kveðja. Keflavík hefur verið stór hluti af mínu lífi og tíminn þar hefur verið dýrmætur, fullur af góðum minningum, reynslu og frábærum félagsskap."

„Ég er ótrúlega þakklát fyrir allt traustið sem mér var sýnt og þann stuðning sem ég fékk. Að fara er alltaf erfitt, en stundum þarf maður að stíga skref sem henta manni best á þeim tímapunkti,"
segir Kristrún.
Athugasemdir
banner
banner