Grealish samþykkir að fara til Everton - Guehi er til sölu fyrir rétt verð - Milan í viðræðum um Höjlund
   mán 11. ágúst 2025 16:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Vonbrigði ársins í íslenskum fótbolta
Lengjudeildin
Fylkir er í fallhættu.
Fylkir er í fallhættu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kvennalið Fylkis er í vondri stöðu.
Kvennalið Fylkis er í vondri stöðu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árangurinn hefur lítið batnað eftir að Arnar Grétarsson tók við.
Árangurinn hefur lítið batnað eftir að Arnar Grétarsson tók við.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir tímabilið var Fylki spáð efsta sæti Lengjudeildarinnar og sumir héldu bara að liðið myndi fljúga upp eftir að hafa fallið úr Bestu deildinni á síðustu leiktíð.

„Mér finnst þessi lið öllsömul vera nokkuð góð. Þessi lið sem voru í toppbaráttu í fyrra koma til með að vera þar. Af þeim liðum sem ég hef séð, þá finnst mér Fylkir vera með yfirburðarlið. Það fer oft ekki saman góður árangur á undirbúningstímabilinu og í mótinu sjálfu, en Fylkisliðið er langheilsteyptasta liðið sem ég hef séð," sagði Bjarni Jóhannsson, þjálfari Selfoss, til að mynda fyrir tímabil og aðrir þjálfarar tóku í svipaðan tón.

Fylkir hins vegar er í fallsæti þegar sex umferðir eru eftir og hefur liðið aðeins unnið tvo leiki af 16. Það hefur ekki breytt miklu að skipta um þjálfara og það er raunveruleg hætta á því að Fylkir falli um tvær deildir á tveimur árum.

„Fylkir er vonbrigði ársins í íslenskum fótbolta. Það er bara þannig," sagði Elvar Geir Magnússon í útvarpsþættinum Fótbolti.net.

„Fótbolti er skrítin íþrótt. Ef rýnt er í tölfræðina þá er Fylkir yfir eiginlega í öllum tölfræðiþáttum í nánast öllum leikjum sem þeir spila."

„Það sem mér hefur fundist vanta hjá Fylki er afgerandi menn á báðum endum vallarins. Þeir eru að leka mörkum og þeir eru ekki að búa til almennileg færi þrátt fyrir að vera með 50, 60 og 70 prósent með boltann í leikjum," sagði Magnús Þór Jónsson í þættinum.

Þegar horft er í vænt stig eða 'expected points' tölfræðina þá ætti Fylkir að vera í fimmta sæti, í umspilssæti.

‘Expected points’ er sem sagt tölfræði sem mælir líkurnar á því að lið vinni leik miðað við möguleikana sem liðið skapaði og fékk á sig (xG) í þeim tiltekna leik. Þessi tölfræði gefur yfirleitt góða vísbendingu um það hversu mörg stig lið eiga skilið að vera með miðað við frammistöðu. Fylkir er með ellefu stig en ætti samkvæmt þessari tölfræði að vera með 24,1 stig í Lengjudeildinni. Aðeins Keflavík, Njarðvík, ÍR og Þór eru með fleiri stig út frá þessari tölfræði, en stundum falla hlutirnir bara ekki með þér í fótbolta.

Félagið á skrítnum og erfiðum stað
Sumarið hefur verið gríðarleg vonbrigði í Árbænum og ekki bara karlamegin. Kvennaliðið féll einnig úr Bestu deildinni í fyrra og er núna svo gott sem fallið úr Lengjudeildinni. Fylkir er aðeins með sjö stig í Lengjudeild kvenna, átta stigum frá öruggu sæti þegar fjórir leikir eru eftir.

„Ég held að það sé ofboðslega erfitt fyrir Fylki að vera í þessari stöðu. Það hafa reyndari menn en ég í þessum bransa verið að ræða það að þessi lið sem eru í kringum Fylki - Selfoss, Fjölnir og Leiknir - séu lið sem eru meira tilbúin í þetta 'graft'. Fylkir féll í fyrra og ætlaði beint upp, alveg klárlega stefnan," sagði Magnús Þór í útvarpsþættinum.

„Stelpurnar eru bara fallnar og félagið er á skrítnum og erfiðum stað. Það er að mínu mati stórt verkefni fyrir Arnar (Grétarsson) og Fylkisfólk að komast í gang aftur."
Útvarpsþátturinn - Boltabullur, markamet og enski boltinn
Athugasemdir
banner