Liverpool og City fylgjast með Diomande - Disasi á förum - Panichelli til Englands - Newcastle gæti fengið einn ódýrt
   þri 09. desember 2025 13:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Pínu svekktur ef hann ætlar ekki að drulla sér aftur út"
Daníel varð Íslandsmeistari með Víkingi í sumar og var valinn í lið ársins.
Daníel varð Íslandsmeistari með Víkingi í sumar og var valinn í lið ársins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kjartan Kári og Björn Daníel.
Kjartan Kári og Björn Daníel.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Björn Daníel sagði að það hefði verið erfitt að mæta Gísla Eyjólfs.
Björn Daníel sagði að það hefði verið erfitt að mæta Gísla Eyjólfs.
Mynd: ÍA
Björn Daníel Sverrisson var gestur í Draumaliðinu hjá Jóa Skúla á dögunum. Björn Daníel hefur lagt skóna á hilluna eftir farsælan feril og er orðinn þjálfari Sindra á Höfn í Hornafirði.

Í þættinum sagði miðjumaðurinn frá því að þeir Thomas Delaney (FCK) og Stanislav Lobotka (Nordsjælland), sem hann mætti í dönsku úrvalsdeildinni, hefðu verið erfiðustu andstæðingarnir á ferlinum.

Á Íslandi voru erfiðustu andstæðingarnir þeir Gísli Eyjólfsson og Daníel Hafsteinsson.

„Það eru alltaf þessar týpur sem geta sólað mann og svoleiðis, það eru tveir. Mér fannst alltaf ógeðslega erfitt að spila á móti Gísla Eyjólfs, hann gat bara sólað tvo gaura og farið upp völlinn, mér fannst alltaf erfitt að fá hann á mig, þá vissi ég að ég þyrfti að beina honum eitthvert og vona að einhver annar myndi taka boltann af honum. Svo finnst mér mjög erfitt að spila á móti Daníel Hafsteinssyni."

„Málið með Danna er að hann hefur eiginlega allt, hann getur keyrt af stað með boltann, hann er góður í stuttu spili og hann er góður að verja svæði. Ég þekki hann ágætlega, ef hann er að hlusta og heyrir þetta þá er ég pínu svekktur ef hann ætlar ekki að drulla sér aftur út (erlendis) að spila fótbolta. Hann á ekkert að vera í Víkingi, drullaðu þér aftur,"
sagði Björn Daníel á léttu nótunum. Hann spilaði með Daníel tímabilið 2020 með FH. Daníel var þá á láni frá sænska félaginu Helsingborg. Hann er 26 ára og hefur leikið hér á landi síðan.

Í þættinum sagði hann frá öðrum leikmanni í Bestu deildinni sem hann sér fyrir sér fara aftur erlendis. Það er liðsfélagi hans úr FH, Kjartan Kári Halldórsson.

„Ég ætla fullyrða það að ef ég hefði spilað tíu ár með Kjartani Kára þá myndi ég eiga 100 mörk í efstu deild. Hann finnur hálfan metra úti á vængnum, kemur boltanum inn á teig og ég skalla. Það er galið að horfa á þennan gaur sparka í boltann. Hann setur boltann á vinstri, kemur með hann fyrir, inn á miðjan teiginn og ekkert vesen. Ég er fastur á því að því að hann verði ekki leikmaður á Íslandi á næsta ári og ég ætla vona það. Það er svo þægilegt að spila með svona gaur þar sem þú veist bara (að boltinn kemur) ég skoraði átta mörk í sumar og ég held að hann hafi lagt upp sex af þeim," sagði Björn Daníel.

Hann segir í viðtalinu að hann hefði valið Kjartan Kára á vinstri kantinn í draumaliðið sitt ef þeir hefðu spilað lengur saman, en stöðuna fékk Atli nokkur Guðnason. Hægt er að hlusta á þáttinn hér að neðan.

Athugasemdir
banner