Alisson Becker og Arne Slot svöruðu spurningum á fréttamannafundi fyrir stórleik Liverpool gegn Inter sem fer fram í kvöld.
Þeir voru aðallega spurðir út í Mohamed Salah sem gaf svakalegt viðtal við fréttamenn eftir 3-3 jafntefli Liverpool gegn Leeds um helgina, í leik þar sem Salah var ónotaður varamaður í annað sinn á stuttum tíma.
Alisson reyndi bæði að standa með vini sínum Salah og stjóranum Slot þegar hann svaraði spurningum í gær.
08.12.2025 21:35
Alisson um Salah: Ekki auðveld staða fyrir okkur
„Ég á í góðu sambandi við þjálfarann," sagði Alisson sem var svo spurður út í ummæli Wayne Rooney, sem segir þessa hegðun Salah sýna mikla vanvirðingu gagnvart liðsfélögum hans og Liverpool sem fótboltafélagi. „Ég er ekki búinn að heyra hvað hann (Rooney) sagði svo ég get ekki tjáð mig um það."
Alisson snéri sér svo beint að því að svara spurningum um Salah.
„Orð hans geta borið mikla þyngd enda erum við að tala um Mo Salah sjálfan. Þetta er persónulegt mál fyrir hann og við erum fullorðnir menn. Við skiljum að þetta getur verið erfitt fyrir Mo.
„Ég held að markmiðið hans hafi ekki verið að sýna neinum vanvirðingu, hann er með málfrelsi til að tjá sínar tilfinningar og skoðanir á stöðu sinni hjá félaginu. Við viljum ekki að neinum leikmanni í liðinu líði vel á bekknum, menn eiga ekki að vilja sitja á tréverkinu í 90 mínútur. Mo hefur málfrelsi en núna þarf hann að takast á við afleiðingar orða sinna, það er augljóst. Orðum fylgir ábyrgð.
„Varðandi þetta mál þá skiptir í raun engu máli hvernig okkur liðsfélögum hans líður, það mikilvæga er það sem við gerum á vellinum. Við verðum að vera samheldnir og leggja mikla vinnu á okkur ef við viljum snúa erfiðri stöðu við. Þetta snýst ekki bara um Mo, þetta snýst um hvað er best fyrir liðið og fyrir klúbbinn."
Athugasemdir


