Hvert fer Salah? - Wharton vill Meistaradeild - Ederson til Liverpool eða Barca - Arsenal og Real berjast um Yildiz
   mán 08. desember 2025 23:25
Ívan Guðjón Baldursson
Amorim: Klúðruðum alltof mörgum færum
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Ruben Amorim þjálfari Manchester United var ánægður með þægilegan sigur á útivelli gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Man Utd skoraði fjögur mörk í sigrinum og hefðu þau hæglega getað verið fleiri.

„Við spiluðum vel stærsta hluta leiksins og hefðum getað unnið stærra. Ég er mjög ánægður með seinni hálfleikinn, við sköpuðum virkilega mikið. Við höfum verið að stjórna leikjum án þess að klára þá með sigri og ég ítrekaði fyrir strákunum í hálfleik hversu mikilvægt það er fyrir okkur að vinna þennan leik. Þeir voru stórkostlegir eftir leikhléð," sagði Amorim.

„Það er enn ýmislegt sem við megum bæta við okkar leik. Við verðum að bæta gæði marktilraunanna hjá okkur og við verðum að verjast betur."

Mason Mount kom inn í sóknarlínuna í staðinn fyrir Joshua Zirkzee og átti mjög góðan leik. Hann skoraði eitt mark og var meðal bestu leikmanna vallarins.

„Þetta er ekki bara markið sem hann skoraði heldur hvernig hann spilaði leikinn. Þetta er hvernig hann sækir, hvernig hann verst, hann skilur sín eigin gæði mjög vel og getur skipt sköpum fyrir okkur. Hann er virkilega góður og vinnusamur leikmaður og hann veit að stundum þarf hann að byrja á varamannabekknum."

Rauðu djöflarnir eru jafnir Chelsea á stigum í Evrópubaráttunni eftir sigurinn, með 25 stig úr 15 umferðum.

„Við verðum að nýta færin okkar betur. Ég veit að við skoruðum fjögur mörk í þessum leik en við fengum svo mörg færi til að bæta við mörkum. Þetta er vandamál hjá okkur hvað við erum slakir í að nýta færin. Ég er mjög ánægður með hversu skapandi strákarnir voru í þessum leik. Núna verðum við líka að vinna næsta leik."

Man Utd tekur á móti Bournemouth í afar spennandi slag eftir viku.

   08.12.2025 22:02
England: Rauðu djöflarnir fóru létt með Úlfana

Athugasemdir
banner
banner