Alþjóðafótboltasambandið FIFA hefur staðfest vatnspásufyrirkomulagið fyrir heimsmeistaramótið sem haldið verður í Norður-Ameríku á næsta ári.
Þar munu vera gerðar tvær auka vatnspásur á öllum leikjum mótsins enda fer það fram um hásumar og er hægt að búast við miklum hita.
Það verður ein vatnspása í hvorum hálfleik sem mun vara í þrjár mínútur hvort skiptið.
Þetta er reglubreyting sem FIFA kemur með í tilraun sinni til að setja heilsu fótboltamanna í forgang. Leikjaálagið sem atvinnumenn í fótbolta þurfa að þola er orðið gríðarlega mikið og virðist sífellt verða meira.
Það verða vatnspásur á öllum leikjum heimsmeistaramótsins, sama hvernig viðrar. Pásurnar munu eiga sér stað um miðbik hvors hálfleiks, í kringum 22. mínútu.
Sérfræðingar hafa varað við veðrinu í Bandaríkjunum næsta sumar þar sem heimsmeistaramótið gæti séð einhvers konar veðurtengd met falla. Hvort sem um er að ræða hitamet, skógarelda, þrumuveður eða jafnvel hvirfilbyli sem gætu haft áhrif á mótskipulagið. Talið er að 10 af 16 leikvöngum sem munu hýsa leiki á heimsmeistaramótinu séu á mjög háu hættustigi í þessum efnum.
Í sumar var haldið heimsmeistaramót félagsliða í Bandaríkjunum og kvörtuðu leikmenn sáran útaf alltof miklum hita. Enzo Fernández, sem vann HM landsliða með Argentínu 2024 og svo HM félagsliða með Chelsea í sumar, tjáði sig sérstaklega um hitann í viðtali við fjölmiðla. Þar sagðist hann hafa fundið fyrir svima í einum leik á mótinu og að það væri stórhættulegt fyrir leikmenn að spila í svona miklum hita.
Thomas Tuchel landsliðsþjálfari Englands viðurkenndi í síðustu viku að hann sé að íhuga það ásamt starfsteyminu að geyma varamennina inni í búningsklefanum frekar heldur en á varamannabekknum útaf hitanum óstjórnanlega.
Athugasemdir



