Baldur Logi Guðlaugsson gekk á dögunum í raðir Keflavíkur en hann kemur á frjálsri sölu frá Stjörnunni eftir þrjú tímabil í Garðabæ.
Baldur Logi er fjölhæfur leikmaður, horfir á sig sem 'áttu' eða 'tíu, sem fæddur er árið 2002. Hann er uppalinn hjá FH og lék á sínum tíma 17 leiki fyrir unglingalandsliðin.
Baldur Logi er fjölhæfur leikmaður, horfir á sig sem 'áttu' eða 'tíu, sem fæddur er árið 2002. Hann er uppalinn hjá FH og lék á sínum tíma 17 leiki fyrir unglingalandsliðin.
„Ég er fyrst og fremst ánægður og mjög spenntur að vera orðinn leikmaður Keflavíkur. Þetta er frábært tækifæri fyrir mig til þess að vaxa sem leikmaður og taka þátt í spennandi verkefni. Við tókum fund og ég fann að áhuginn var mikill að fá mig og þeirra sýn passaði klárlega við það sem ég er að leitast eftir," segir Baldur Logi við Fótbolta.net.
En hvernig var tíminn hjá Stjörnunni?
„Hann var mjög lærdómsríkur fyrir mig, ég lenti í allskyns mótlæti eins og meiðslum og að fá ekki eins mikinn spiltíma og ég hefði viljað. Ég er samt á því að ég hafi bætt mig sem leikmaður og ég hafi þroskast mikið sem manneskja. Ég er mjög þakklátur að hafa kynnst öllu fólkinu í Stjörnunni og tek það með mér út úr þessum tíma, þó svo að maður hefði viljað fá fleiri tækifæri."
Hann kom við sögu í 13 leikjum í Bestu í sumar, 17 leikjum í fyrra og einungis átta sumarið 2023.
Hvert er markmiðið með Keflavík?
„Það er klárlega að halda okkur uppi og búa til lið sem er stöðugt í Bestu deildinni. Fyrir mig persónulega er markmiðið að spila eins mikið og hægt er og hjálpa liðinu eins mikið og ég get."
Faðir Baldurs er Guðlaugur Baldursson sem stýrði liði Keflavíkur 2017-18.
„Ég ræddi mikið við hann og hann hafði ekkert nema góða hluti að segja um Keflavík," segir Baldur Logi að lokum.
Athugasemdir

