Íslenskættaði Daninn Jon Dahl Tomasson hætti sem þjálfari Blackburn á Englandi í síðustu viku og er líklegur til að taka við sænska landsliðinu.
Tomasson skrifaði undir þriggja ára samning við Blackburn fyrir tveimur árum en hann var ekki nægilega ánægður með það hvernig staðið var að leikmannamálum félagsins. Hann komst því að samkomulagi við Blackburn um að hætta störfum.
Síðan þá hefur hann verið sterklega orðaður við sænska landsliðið sem hefur lengi verið í þjálfaraleit.
Expressen í Svíþjóð hafði samband við Age Hareide, landsliðsþjálfara Íslands, til að fá upplýsingar um Tomasson en þeir unnu saman hjá danska landsliðinu. Hareide er á því að Tomasson yrði fullkominn kostur fyrir sænska landsliðið.
„Fullkominn kostur. Það yrði mjög gott fyrir sænska landsliðið að fá hann inn," segir Hareide.
„Jon er ótrúlega vinnusamur einstaklingur sem er með skýrar hugmyndir um það hvernig fótbolta hann vill spila. Hann er líka með mikla reynslu úr landsliðsumhverfi, bæði sem leikmaður og sem þjálfari. Við unnum mjög saman hjá danska landsliðinu."
„Sem leikmaður þá var hann með þjálfara eins og Carlo Ancelotti, Giovanni Trapattoni og Manuel Pellegrini. Hann lærði mikið af þessum þjálfurum."
Hareide er á því máli að Tomasson yrði frábær kostur fyrir sænskan fótbolta en það verður fróðlegt að sjá hvort það sé rétt, að hann sé að taka við starfinu.
Athugasemdir