Man City gæti boðið í Rodrygo - Forest að fá McAtee - Tottenham þreifar á Eze
   þri 12. ágúst 2025 20:07
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: Thelma Lóa með þrennu í markaleik - Langþráður fyrsti sigur FHL
Kvenaboltinn
Thelma Lóa skoraði þrennu fyrir FH
Thelma Lóa skoraði þrennu fyrir FH
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elísa Lana átti góðan leik í liði FH
Elísa Lana átti góðan leik í liði FH
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Berglind Björg og Agla voru flottar hjá Blikum
Berglind Björg og Agla voru flottar hjá Blikum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FHL er loksins komið á blað!
FHL er loksins komið á blað!
Mynd: FHL
Thelma Lóa Hermannsdóttir skoraði þrennu er FH vann Þór/KA, 5-3, í baráttuleik í 13. umferð Bestu deildar kvenna í kvöld. Nýliðar FHL unnu þá fyrsta leik sinn í sumar með því að leggja Fram að velli, 3-2, í Fjarðabyggðarhöllinni.

Fyrri hálfleikurinn hjá FH og Þór/KA var einstaklega líflegur svo vægt sé til orða tekið en alls voru sex mörk skoruð í honum.

Thelma Lóa opnaði leikinn á 11. mínútu er hún hirti frákast eftir skot Elísu Lönu Sigurjónsdóttur en tveimur mínútum síðar jafnaði Sonja Björg Sigurðardóttir með umdeildu marki. Hulda Ósk Jónsdóttir átti skalla eftir hornspyrnu sem Macy Elizabeth Enneking, markvörður FH, virtist vera vald á boltanum áður en Sonja sparkaði honum úr höndum hennar og í netið.

Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA kom liðinu yfir á 25. mínútu með skalla í slá og inn, en FH-ingar voru ekki lengi að svara því og skoruðu tvö á móti.

Maya Lauren Hansen slapp í gegn mínútu síðar og jafnaði metin eftir sendingu frá Thelmu og þá gerði sú síðarnefnda annað mark sitt nokkrum mínútum síðar.

Varnarleikurinn ekki upp á sitt besta hjá báðum liðum í fyrri hálfleiknum og sýndi það sig þegar Margrét Árnadóttir jafnaði metin fyrir gestina. Hulda Björg Hannesdóttir negldi aukaspyrnu fram og fór boltinn af Huldu Ósk og á Margréti sem skoraði örugglega.

Sex mörk í fyrri hálfleik en það var ekki alveg sama sýning í þeim síðari.

Thelma fullkomnaði þrennu sína á 58. mínútu og kom FH-ingum aftur í forystu. Aftur voru þær Elísa Lana og Thelma að tengja í sóknarleiknum.

Undir lok leiks tryggði Ingibjörg Magnúsdóttir sigurinn eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Valgerður Ósk Valsdóttir átti flottan bolta á Ingibjörgu sem plataði Bríeti upp úr skónum áður en hún gerði út um leikinn.

Flottur sigur hjá FH-ingum sem eru í öðru sæti með 31 stig, sex stigum frá toppliði Breiðabliks sem vann á meðan Víking, 4-2, í Víkinni.

Blikaliðið hefur verið ógnarsterkt á þessari leiktíð og eru líklegar til þess að verja Íslandsmeistaratitilinn.

Agla María Albertsdóttir skoraði á 25. mínútu leiksins og bætti Berglind Björg Þorvaldsdóttir við öðru marki fjórum mínútum síðar eftir undirbúning frá Andreu Rut Bjarnadóttur.

Víkingar fengu ágætis færi til að skora í fyrri hálfleiknum, en vantaði upp á færanýtinguna. Blikar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og var það Berglind Björg sem skoraði annað mark sitt og þriðja mark Blika þegar fimm mínútur voru liðnar.

Agla María átti hornspyrnu beint á kollinn á Berglindi sem var ekki í vandræðum með að skora.

Víkingar náðu að koma sér aðeins inn í leikinn þegar hálftími var eftir. Bergdís Sveinsdóttir skoraði eftir sendingu frá Þórdísi Hrönn Sigfúsdóttur og þá bætti Dagný Rún Pétursdóttir við öðru þegar tuttugu mínútur voru eftir.

Heimakonur að gera leikinn spennandi og þær líklegar næstu mínútur á eftir áður en Karitas Tómasdóttir drap vonir Víkinga með fjórða markinu. Samantha Smith átti skalla í þverslá og niður á Karitas sem potaði boltanum í netið.

Blikar með enn einn sigurinn og eru nú á toppnum með 37 stig, sex stiga forystu á FH sem er í öðru, en Víkingur í næst neðsta sæti með 10 stig.

FHL vann sinn fyrsta sigur í sumar er það lagði Fram að velli, 3-2, í leik sem bauð upp á dramatík í lokin.

Heimakonur voru betri í byrjun leiks og verðskulduðu að komast yfir þegar Calliste Brookshire tæklaði boltann í netið eftir góðan undirbúning Bjargar Gunnlaugsdóttur.

Staðan var 1-0 í hálfleik en FHL hefði vel getað skorað fleiri mörk í fyrri hálfleiknum.

FHL hélt áfram að skapa sér góð færi í þeim síðari og Framarar sömuleiðis, en það varð aðeins léttara yfir heimakonum þegar annað markið kom á 86. mínútu. Framarar ætluðu að hreinsa frá en það dreif ekki lengra en á Alexiu Marin Czerwien sem fékk boltann í sig og þaðan í netið.

Níu mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og fór aðeins um FHL þegar Alda Ólafsdóttir minnkaði muninn á þriðju mínútu í uppbótartímanum.

Taylor Marie Hamlett sá hins vegar til þess að koma FHL aftur í tveggja marka forystu þegar ein mínúta var eftir eftir frábært einstaklingsframtak.

Murielle Tiernan skoraði sárabótarmark fyrir Framara stuttu síðar áður en flautað var til leiksloka. Mikill léttir fyrir FHL sem var að ná í fyrstu stigin í sumar og er nú með þrjú stig á botninum en Fram í 7. sæti með 15 stig.

FH 5 - 3 Þór/KA
1-0 Thelma Lóa Hermannsdóttir ('11 )
1-1 Sonja Björg Sigurðardóttir ('13 )
1-2 Sandra María Jessen ('25 )
2-2 Maya Lauren Hansen ('26 )
3-2 Thelma Lóa Hermannsdóttir ('31 )
3-3 Margrét Árnadóttir ('33 )
4-3 Thelma Lóa Hermannsdóttir ('58 )
5-3 Ingibjörg Magnúsdóttir ('90 )
Lestu um leikinn

Víkingur R. 2 - 4 Breiðablik
0-1 Agla María Albertsdóttir ('25 )
0-2 Berglind Björg Þorvaldsdóttir ('29 )
0-3 Berglind Björg Þorvaldsdóttir ('50 )
1-3 Bergdís Sveinsdóttir ('59 )
2-3 Dagný Rún Pétursdóttir ('70 )
2-4 Karitas Tómasdóttir ('82 )
Lestu um leikinn

FHL 3 - 2 Fram
1-0 Calliste Brookshire ('14 )
2-0 Alexia Marin Czerwien ('86 )
2-1 Alda Ólafsdóttir ('93 )
3-1 Taylor Marie Hamlett ('98 )
3-2 Murielle Tiernan ('99 )
Lestu um leikinn
Besta-deild kvenna
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Breiðablik 14 12 1 1 56 - 11 +45 37
2.    FH 13 10 1 2 33 - 15 +18 31
3.    Þróttur R. 12 9 1 2 26 - 12 +14 28
4.    Þór/KA 13 6 0 7 23 - 25 -2 18
5.    Valur 13 5 3 5 16 - 19 -3 18
6.    Stjarnan 12 5 0 7 15 - 24 -9 15
7.    Fram 13 5 0 8 18 - 33 -15 15
8.    Tindastóll 12 4 1 7 17 - 23 -6 13
9.    Víkingur R. 13 3 1 9 21 - 33 -12 10
10.    FHL 13 1 0 12 8 - 38 -30 3
Athugasemdir
banner
banner