banner
   mán 13. mars 2023 23:40
Ívan Guðjón Baldursson
Mateo Retegui á leið í ítalska landsliðið
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Ítalsk-argentínski sóknarmaðurinn Mateo Retegui verður kallaður upp í ítalska landsliðið fyrir næsta landsliðsverkefni. Þetta staðfestir Roberto Mancini landsliðsþjálfari.


Ítalíu mistókst óvænt að komast á HM í Katar eftir að hafa unnið EM á Englandi. Markaleysi var mikið vandamál í leikjum gegn Sviss og Makedóníu í undankeppninni, sem urðu til þess að lærisveinar Mancini fengu ekki farmiða til Katar.

Mancini hefur áður talað um vandamál í sóknarleik Ítalíu þar sem leikmenn hafa verið afar óheppnir með meiðsli að undanförnu og verið að fá lítinn spiltíma hjá félagsliðum. 

Hann ætlar því að leita til Retegui, sem mun glaður velja ítalska landsliðið framyfir það argentínska þrátt fyrir að vera uppalinn í Suður-Ameríku. Það er gríðarlega erfitt að vera argentínskur sóknarmaður þar sem samkeppnin um byrjunarliðssæti í sóknarlínunni er ótrúleg. Það sama er ekki uppi á teningnum hjá Ítalíu.

Retegui er 23 ára gamall leikmaður Boca Juniors sem hefur verið að gera frábæra hluti að láni hjá Tigre, sem leikur í efstu deild í Argentínu. Á yfirstandandi leiktíð er hann með 6 mörk í 7 deildarleikjum en á síðustu leiktíð gerði hann 19 mörk í 27 leikjum.

Retegui er frægt nafn í Argentínu þar sem faðir hans, Carlos Retegui, er gríðarlega fræg hokkístjarna. Carlos var ráðinn sem aðstoðarþjálfari Carlos Tevez hjá Rosario Central í fyrra, en Tevez entist ekki lengi í starfi sem aðalþjálfari.

„Við munum heyra í Mateo Retegui. Við höfum fylgst með honum um tíma og hann hefur nákvæmlega þá eiginleika sem okkur vantar í sóknarleikinn,"  sagði Roberto Mancini meðal annars.


Athugasemdir
banner
banner