Alonso mikill aðdáandi Zubimendi - Funda í þriðja sinn um Fernandes - Ten Hag að taka við Leverkusen?
   sun 11. maí 2025 15:20
Brynjar Ingi Erluson
England: Man Utd og Tottenham töpuðu - Leicester gerði Chelsea greiða
Mohammed Kudus var með bestu mönnum West Ham
Mohammed Kudus var með bestu mönnum West Ham
Mynd: EPA
Eberechi Eze afgreiddi Tottenham
Eberechi Eze afgreiddi Tottenham
Mynd: EPA
Leicester tók stig af Forest
Leicester tók stig af Forest
Mynd: EPA
Manchester United og Tottenham Hotspur, liðin tvö sem mætast í úrslitum Evrópudeildarinnar, töpuðu bæði leikjum sínum í 36. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Leicester City gerði Chelsea greiða í Meistaradeildarbaráttunni.

Man Utd tapaði fyrir West Ham, 2-0, á Old Trafford. sem var sautjánda deildartap United á tímabilinu.

Það var jafnræði með liðunum fyrstu mínúturnar áður en West Ham tók forystuna eftir rúmar tuttugu mínútur. Aaron Wan-Bissaka fann Mohammed Kudus í hlaupinu sem kom með laglega fyrirgjöf inn á Tomas Soucek sem skoraði.

Rasmus Höjlund fór illa með tvö góð færi áður en hálfleikurinn var úti og staðan 1-0 fyrir West Ham í hálfleik.

West Ham tvöfaldaði forystuna á 57. mínútu. United var á leið í skyndisókn er Manuel Ugarte fékk boltann. Hann reyndi að skýla honum í stað þess að finna samherja og tapaði honum. Kudus keyrði fram og reyndi skot sem fór af varnarmanni og til Wan-Bissaka. Hann var kominn í ágætis skotfæri en ákvað í staðinn að þræða boltann á milli varnarmanna og á Jarrod Bowen sem skoraði af stutt færi. Frábær sending hjá Wan-Bissaka gegn sínum gömlu félögum.

United fór í sóknargír og skapaði sér nokkur góð færi. Alphonse Areola var að eiga góðan leik í markinu og varði frá þeim Höjlund og Harry Maguire í nokkur skipti.

Heimamönnum tókst ekki að koma til baka og niðurstaðan 2-0 sigur West Ham sem fer upp fyrir United og í 15. sætið en United komið niður í 16. sæti deildarinnar.

Tottenham tapaði á meðan fyrir Crystal Palace, 2-0, á Tottenham Hotspur-leikvanginum í Lundúnum.

Palace var með öll völd á fyrri hálfleiknum og voru tvö mörk dæmd af liðinu. Hálf-sjálfvirka rangstöðukerfið tók fyrra markið af þar sem hluti af öxl Jean-Philippe Mateta var fyrir innan og þá var seinna markið dæmt af vegna hendi í aðdragandanum.

Gestirnir náðu í mikilvægt mark undir lok hálfleiksins er Eberechi Eze hljóp á sendingu Daniel Munoz og skoraði. Eze var síðan aftur á ferðinni í byrjun síðari hálfleiks eftir góða skyndisókn. Fimm mörk í síðustu fjórum leikjum hjá honum.

Flottur 2-0 sigur hjá Palace sem er í 12. sæti með 49 stig en Tottenham í 17. sæti með aðeins 38 stig.

Leicester City gerði Chelsea-mönnum greiða í Meistaradeildarbaráttunni með því að stela stigi af Nottingham Forest.

Forest hefði með sigri getað farið upp fyrir Chelsea á töflunni en Leicester hafði önnur plön.

Conor Coady kom Leicester óvænt í forystu á 16. mínútu leiksins en Morgan Gibbs-White svaraði tæpum tíu mínútum síðar.

Heimamenn í Forest fengu draumabyrjun á síðari hálfleiknum er Chris Wood stangaði fyrirgjöf Gibbs-White í nærhornið.

Forest var að sigla þessu örugglega heim og á leið í Meistaradeildarsæti er varamaðurinn Facundo Buonanotte náði að jafna metin fyrir Leicester eftir stoðsendingu Jamie Vardy.

Leicester fékk meira að segja tækifærið til að skora sigurmarkið í uppbótartíma sem hefði verið sögulegt en það fékk hinn 15 ára gamli Jeremy Monga.

Monga kom sér í færi eftir undirbúning Vardy en Mats Selz kom í veg fyrir að Monga setti sögulegt met í deildinni. Markið hefði gert hann að yngsta markaskorara allra tíma.

Svekkjandi 2-2 jafntefli hjá Forest staðreynd og liðið áfram í 7. sæti með 62 stig en Leicester áfram í næst neðsta sæti með 22 stig.

Manchester Utd 0 - 2 West Ham
0-1 Tomas Soucek ('26 )
0-2 Jarrod Bowen ('57 )

Nott. Forest 2 - 2 Leicester City
0-1 Conor Coady ('16 )
1-1 Morgan Gibbs-White ('25 )
2-1 Chris Wood ('56 )
2-2 Facundo Buonanotte ('81 )

Tottenham 0 - 2 Crystal Palace
0-1 Eberechi Eze ('45 )
0-2 Eberechi Eze ('48 )
Athugasemdir
banner