Alonso mikill aðdáandi Zubimendi - Funda í þriðja sinn um Fernandes - Ten Hag að taka við Leverkusen?
   sun 11. maí 2025 14:43
Brynjar Ingi Erluson
Sjóðandi heitur Ísak með frábært mark í Svíþjóð - Markalaust í toppslag í Noregi
Ísak Andri hefur verið í miklum ham í síðustu leikjum
Ísak Andri hefur verið í miklum ham í síðustu leikjum
Mynd: Guðmundur Svansson
Lærisveinar Freysa gerðu markalaust jafntefli í toppslag
Lærisveinar Freysa gerðu markalaust jafntefli í toppslag
Mynd: Fótbolti.net - Valur Gunnarsson
Ísak Andri Sigurgeirsson skoraði eina mark Norrköping sem gerði 1-1 jafntefli við Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni í dag en Stjörnumaðurinn hefur verið sjóðandi heitur í síðustu leikjum liðsins.

Vængmaðurinn skoraði mark Norrköping á 15. mínútu og var það af dýrustu gerð.

Hann fékk boltann vinstra megin við teiginn og skrúfaði föstum bolta efst í hægra hornið. Ísak hefur komið að sex mörkum í síðustu fimm leikjum Norrköping og alveg óhætt að segja að hann sé sjóðandi heitur í byrjun tímabils.

Arnór Ingvi Traustason var á miðsvæðinu hjá Norrköping sem er í 7. sæti deildarinnar með 10 stig.

Freyr Alexandersson og lærisveinar hans í Brann gerðu markalaust jafntefli við Rosenborg í norsku úrvalsdeildinni. Eggert Aron Guðmundsson var á miðjunni hjá Brann og þá kom Ísak Snær Þorvaldsson inn á sem varamaður hjá Rosenborg.

Brann, sem hefur fagnað góðu gengi á tímabilinu, er í efsta sæti með 16 stig en Rosenborg í öðru sæti með 15 stig.

Kolbeinn Birgir Finnsson kom inn af bekknum hjá Utrecht sem tapaði fyrir Twente, 2-0, í hollensku úrvalsdeildinni. Utrecht er í 4. sæti með 62 stig og á enn möguleika á að komast í Meistaradeildina fyrir næstu leiktíð.

Daníel Leó Grétarsson kom inn á sem varamaður hjá SönderjyskE sem tapaði fyrir Silkeborg, 1-0, í fallriðli dönsku úrvalsdeildarinnar.

SönderjyskE er í 9. sæti með 31 stig. Kristall Máni Ingason var ekki með SönderjyskE í dag.

Damir Muminovc lék allan leikinn í vörninni hjá DPMM sem vann magnaðan 4-3 sigur á Balastier Khalsa í úrvalsdeildinni í Singapúr. DPMM er í 6. sæti með 38 stig.

Davíð Kristján Ólafsson byrjaði þá hjá Cracovia sem tapaði fyrir GKS Katowice, 2-1, í pólsku úrvalsdeildinni. Cracovia er í 8. sæti með 45 stig þegar tvær umferðir eru eftir.


Athugasemdir
banner