
'Þá var rosalega skýr stefna hvað menn ætluðu að gera. En núna átta ég mig ekki almennilega á stefnunni'
KA hefur ekki farið vel af stað á þessu tímabili, liðið er í botnsæti Bestu deildarinnar eftir sex umferðir með fjögur stig. Liðið tapaði 0-1 gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks á Greifavellinum í gær. Varnarlega var frammistaðan betri en í leikjunum á undan en framan af leik var afskaplega lítið bit sóknarlega.
Almarr Ormarsson, fyrrum fyrirliði KA, var gestur í Innkastinu og hafði hann miklar áhyggjur af sínu liði.
Almarr Ormarsson, fyrrum fyrirliði KA, var gestur í Innkastinu og hafði hann miklar áhyggjur af sínu liði.
Lestu um leikinn: KA 0 - 1 Breiðablik
Áttar sig ekki á stefnunni
„Auðvitað er ég ekki sáttur, eins og staðan er núna er KA eitt lélegasta lið deildarinnar, KA er á botninum og út frá þeirri tölfræði er liðið lélegasta liðið. Mér finnst KA, FH og ÍA hafa sýnt lélegustu leikina í sumar, þessi lið eru búin að vera döpur. Fram er með jafnmörg stig og ÍA en ég hef miklu minni áhyggjur af þeim heldur en ÍA, spilamennska Fram gefur von um betri tíma," segir Almarr og heldur áfram:
„KA er bara langt frá því að vera nógu gott þessa stundina. Ég veit ekkert hver ástæðan er, er ekki með neina töfralausn fyrir þá. Það verður bara að koma meira frá mönnum og þeir þurfa að leggja sig meira fram, það er svo einfalt eitthvað að segja það. Það eru alveg gæði í hópnum, menn sem hafa verið lengi í þessari deild, en þetta er allt eitthvað svo voðalega hægt og menn eru þungir."
„Ég sá meðalaldurinn í síðustu tveimur leikjum, 32 ár gegn ÍA og 30 ár gegn Breiðabliki. Ég veit ekki hvort ég eigi að gagnrýna Hadda þjálfara, stjórnina, eða hvað það er, en af hverju eru ennþá allir sömu leikmennirnir? Ég er ekki að segja að þeir séu allir hræðilegir fótboltamenn, en af hverju eru ennþá allir leikmennirnir sem ég var að spila með fyrir fimm árum síðan? Það er svo lítil endurnýjun og þeir sem hafa verið að koma nýir inn hafa ekki náð að stimpla sig nógu vel inn í þetta lið."
„Það er lengi búið að tala um að það séu svo efnilegir yngri flokkar þarna, þeir verða að fara skila sér! Það eru nokkrir leikmenn sem eru farnir að fá mínútur. Ef að þeir eru ekki þarna... svo sem dæmi missum við heitasta Húsvíkinginn í KR í vetur (Jakob Gunnar Sigurðsson), af hverju er þessi leikmaður ekki kominn í KA? Ef að ungu KA mennirnir eru ekki nógu góðir, hvar eru þá ungu Dalvíkingarnir, Húsvíkingarnir, Ólafsfirðingarnir? Ég sé ekki stefnuna núna hjá liðinu."
„Þegar ég kom í KA aftur eftir alla mína veru fyrir sunnan, þá var rosalega skýr stefna hvað menn ætluðu að gera. Við fórum upp og það átti að búa til lið sem gæti verið í efri hlutanum í efstu deild. Oft náði liðið því. En núna átta ég mig ekki almennilega á stefnunni. Liðið var í fallbaráttu í fyrra, það breytist voða lítið, og við erum að fara í fallbaráttu aftur núna. Ef ekkert breytist þá er KA að fara falla," segir Almarr sem auðheyranlega hafði miklar áhyggjur.
„Við misstum tvo bestu mennina okkar, misstum þá frítt líka. Það er eitthvað sem má ekki gerast. Á Íslandi er allt í einu farið að selja leikmenn á milli félaga á háar upphæðir, en KA missir tvo bestu mennina sína frítt. Svona hluti þarf bara að laga einn tveir og bingó. Þetta má ekki gerast," bætti hann við.
Baldvin Már Borgarsson, sem var með þeim Almari og Elvari Geir í þættinum, er á því að liðið hefði komið illa undirbúið til leiks annað tímabilið í röð.
„Mér finnst þeir ekki vera í nógu góðu standi. Þegar leið á tímabilið í fyrra þá varð KA liðið alltaf betra og betra, varð tilbúnara. Það snýst ekki bara um Viðar Örn Kjartansson, það voru fleiri leikmenn. Núna er Viðar í svipuðu standi og (Marcel) Römer þarf fleiri vikur til að koma sér í sitt besta stand. KA hefur ekkert efni á þessu. Þú getur ekki komið inn í mótið tvö ár í röð ekki með liðið tilbúið til að byrja mótið. Þeir virka bara ekki tilbúnir, virka á eftir hinum liðunum," segir Baldvin.
„Ég nefndi meðalaldurinn, það er allt í lagi að hann sé ár ef að þú getur hlaupið og ert með hraðan. En liðið virkar ekki þannig á mig núna. Þeir þurfa að finna lausnir og það fljótt," sagði Almarr.
Baldvin velti því þá fyrir sér hvers vegna Mikael Breki Þórðarson (2007) og Valdimar Logi Sævarsson (2006) væru ekki búnir að spila meira. KA varð Íslandsmeistari í 2. flokki í fyrra og hafa þeir árgangar verið mjög sigursælir síðustu ár.
Nafnarnir verði að leysa málin sín á milli
Hallgrímur Mar Steingrímsson, markahæsti leikmaður í sögu KA, var settur á bekkinn í gær. Hann ræddi við Fótbolta.net eftir leikinn og var ósáttur við ákvörðun þjálfarans og sagði hana „fáránlega".
„Grímsi eiginlega drullar yfir þessa ákvörðun Hadda að taka sig út úr liðinu. Það segir mér að það sé ekkert allt í standi þarna," sagði Baldvin. Almarr tók svo til máls.
„Ég þekki Grímsa mjög vel og veit að hann er mjög snöggur upp. Ég veit líka að Grímsi er allt annað en sáttur með gengi liðsins og sé líka ekki sáttur með eigin frammistöðu hingað til í mótinu. Ég kalla eftir meira frá honum."
„Ég vona að hann hafi bara misst þetta út úr sér, hafi ekki alveg hugsað þetta til enda. Ef að það er eitthvað meira þarna á milli, þá verða nafnarnir að leysa það, þú getur ekki verið með þjálfara og þann leikmann sem á að vera besti leikmaðurinn í fýlu við hvorn annan. Það verður bara að leysa þetta með einum eða öðrum hætti."
„Það er jákvætt að Grímsa sé ekki sama, næst þegar hann byrjar verður hann að sýna að hann eigi heima í byrjunarliðinu, verður að tækla þetta þannig, þýðir ekkert að fara í fýlu. Þér má finnast ákvörðunin fáránleg, þú átt helst ekki að segja það í viðtali, það er gott fyrir okkur fjölmiðlamennina þegar menn segja alls kyns hluti, en vonandi er þetta bara eitthvað sem sparkar í rassinn á öllu liðinu. Þeir verða að fara rífa sig í gang," segir Almarr.
Umræðuna í heild sinni má nálgast í spilaranum hér að neðan þar sem sjötta umferðin í Bestu deildinni var gerð upp.
Besta-deild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Víkingur R. | 6 | 4 | 1 | 1 | 13 - 5 | +8 | 13 |
2. Vestri | 6 | 4 | 1 | 1 | 8 - 2 | +6 | 13 |
3. Breiðablik | 6 | 4 | 1 | 1 | 11 - 8 | +3 | 13 |
4. KR | 6 | 2 | 4 | 0 | 19 - 11 | +8 | 10 |
5. Valur | 6 | 2 | 3 | 1 | 14 - 10 | +4 | 9 |
6. Stjarnan | 6 | 3 | 0 | 3 | 9 - 10 | -1 | 9 |
7. Afturelding | 6 | 2 | 1 | 3 | 4 - 7 | -3 | 7 |
8. ÍBV | 6 | 2 | 1 | 3 | 7 - 11 | -4 | 7 |
9. Fram | 6 | 2 | 0 | 4 | 10 - 11 | -1 | 6 |
10. ÍA | 6 | 2 | 0 | 4 | 6 - 15 | -9 | 6 |
11. FH | 6 | 1 | 1 | 4 | 9 - 11 | -2 | 4 |
12. KA | 6 | 1 | 1 | 4 | 6 - 15 | -9 | 4 |
Athugasemdir