Amorim gæti stigið frá borði ef slæmt gengi Man Utd heldur áfram - Bayern ætlar ekki að bjóða Sane hærri samning
   mán 12. maí 2025 16:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Geitungurinn sem Vestri verður að halda innan sinna raða
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fatai Gbadamosi er algjör lykilleikmaður í liði Vestra. Hann er djúpur miðjumaður sem kom fyrst til Íslands og spilaði með Kórdrengjum tímabilið 2021. Hann fór svo í Vestra þegar Davíð Smári Lamude tók við liðinu fyrir tímabilið 2023.

Hann átti frábæran leik gegn Aftureldingu á laugardag, fékk mikið frá þjálfaranum sínum fyrir frammistöðuna og var valinn í lið umferðarinnar.

„Það má ekki gleyma frammistöðunni hjá Fatai, gjörsamlega stórkostlegur í dag. Hann er gríðarlega illviðráðanlegur, hraðabreytingar og annað hjá honum eru stórkostlegar. Svo fær hann ekki nógu mikið kredit á það að hann er góður í fótbolta. Ég get haldið endalaust áfram með Fatai, hann er gríðarlega sterkur fyrir okkur," sagði Davíð Smári.

Hákon Dagur Guðjónsson fjallaði um leikinn hér á Fótbolti.net og skrifaði eftirfarandi um Fatai í skýrslunni:

„Þessi gaur er eins og geitungur á miðjunni. Ver varnarlínuna sína vel og var einna hættulegastur Vestramanna fram á við í þessum leik, átti nokkur kröftug hlaup með boltann."

Lestu um leikinn: Vestri 2 -  0 Afturelding

Vörn Vestra hefur verið frábær, einungis fengið á sig tvö mörk í fyrstu sex leikjunum. Mörkin skoruðu Valur (jöfnunarmark) og Breiðablik (sigurmark). Í hinum fjórum leikjunum hefur liðið haldið hreinu og unnið. Fatai og öftustu þrír varnarmenn Vestra misstu allir af mörgum leikjum á síðasta tímabili vegna meiðsla, en þeir hafa spilað alla leikina á þessu tímabili. Fatai er frábær í því að vernda vörnina.

Hann er frá Nígeríu og verður 27 ára í nóvember. Hann verður samninglaus eftir tímabilið. Hans fyrrum liðsfélagi hjá Kórdrengjum, Albert Brynjar Ingason, ræddi um hann í Stúkunni á Stöð 2 Sport í gær.

„Ég ætla fara svo langt að hann sé í það minnsta ein besta, ef ekki besta sexa í þessari deild, leikmaður sem ver öftustu línu. Hann er út um allan völl. Hann er búinn að bæta sig mikið í sendingum, orðinn miklu betri í því að halda bolta. Hann er að verða samningslaus eftir tímabilið, það er rosalega mikilvægt fyrir Vestra að halda honum," sagði Albert.

Hér að neðan má nálgast Innkastið þar sem sjötta umferðin í Bestu deildinni var gerð upp.
Innkastið - Almarr með áhyggjur, sögulegt mark og Maggi fær VAR
Athugasemdir