Alonso mikill aðdáandi Zubimendi - Funda í þriðja sinn um Fernandes - Ten Hag að taka við Leverkusen?
   sun 11. maí 2025 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Arteta: Það sem ég sagði fer ekki úr klefanum
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mikel Arteta svaraði spurningum eftir 2-2 jafntefli Arsenal á útivelli gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag. Lærisveinar Arteta lentu tveimur mörkum undir í fyrri hálfleik en spiluðu frábæran seinni hálfleik til að jafna.

Arsenal mætti inn í leikinn eftir þrjá tapleiki í röð, tvo gegn PSG og einn gegn Bournemouth. Leikmenn gengu til búningsklefa tveimur mörkum undir í hálfleik og er Arteta stoltur að þeir hafi fundið styrkinn til að jafna.

„Ég er mjög vonsvikinn með fyrstu 25 mínúturnar, þetta var langt frá því að vera nægilega gott. Við hefðum getað fengið þrjú eða fjögur mörk á okkur í byrjun," sagði Arteta.

„Ég sagði eftir leikinn gegn PSG að við vorum betra liðið og áttum skilið að sigra. Mér finnst ótrúlegt að við höfum ekki komist í úrslitaleikinn (í Meistaradeild Evrópu) miðað við hvernig við spiluðum, en í dag byrjuðum við leikinn ömurlega.

„Ég brást við í leikhléinu en það sem ég sagði við strákana fer ekki úr klefanum. Ef við viljum vinna titla og vera betri heldur en bestu liðin þá verðum við að skipta um gír og setja hærri viðmið. Við verðum að búa stöður til í leikjum í staðinn fyrir að bregðast við stöðum sem andstæðingarnir búa til. Það er mjög mikilvægt.

„Við áttum góðan seinni hálfleik og svo fengum við rautt spjald en náðum að halda út. Þetta eru kröfurnar sem við verðum að gera á sjálfa okkur ef við viljum vera bestir."


Arsenal er í öðru sæti úrvalsdeildarinnar sem stendur, aðeins tveimur stigum fyrir ofan Newcastle í baráttunni um 2. sætið. Liðin mætast í innbyrðisviðureign á Emirates leikvanginum næsta sunnudag.

„Ef þú ert ekki bestur þá er mikilvægt að vera næstbestur. Við sýndum persónuleikann okkar í dag þegar við kláruðum leikinn manni færri og fengum samt færi til að sigra. Hálf sóknarlínan okkar er frá keppni vegna meiðsla og það voru leikmenn að spila sem áttu ekki að spila, en samt tókst okkur að skila góðri frammistöðu eins og við höfum verið að gera nánast allt tímabilið við erfiðar aðstæður.

„Núna fer öll einbeitingin okkar í næsta leik gegn Newcastle. Þetta verður mjög erfiður leikur og við viljum tryggja okkur Meistaradeildarsæti en ég hef fulla trú á strákunum."

Athugasemdir
banner