„Mér fannst við mjög 'professional'. Hefðum auðvitað getað klárað leikinn fyrr en mikilvægt að ná í þrjú stig," sagði Kristófer Ingi Kristinsson, leikmaður Breiðabliks, eftir sigur á KA í dag.
Lestu um leikinn: KA 0 - 1 Breiðablik
Kristófer kom ekkert við sögu í dag en hann er að koma til baka hægt og rólega eftir að hafa fengið slæma sýkingu í kjölfar aðgerðar á báðum ökklum eftir síðasta tímabil. Hann stefndi að því að vera klár fyrir undirbúningstímabilið áður en sýkingin kom út.
„Hef líklegast verið með blöðru á tánni sem sýkingin hefur farið í gegnum, ég er ekki alveg viss hvernig ég fékk það, eitthvað mjög mikið óhapp sem tafði mig svolítið en maður er búinn að ná sér 100% núna, geggjað að vera kominn aftur á völlinn," sagði Kristófer.
„Ég horfði í rauninni á þetta sem meiðsli. Til að byrja með var þetta svolítið ógnvekjandi, maður vissi ekki hvað var að gerast. Maður tók þetta dag frá degi en sem betur fer er þetta búið að jafna sig mjög hratt og vel."
Hann er búinn að vera æfa vel og tilbúinn að spila sig í gang.
„Ég er búinn að vera æfa á fullu í þrjár vikur með liðinu. Maður er að koma sér í takt og byggja þetta upp með mínútum og tengja æfingar."
„Miðað við hvar maður var fyrir stuttu er maður mjög þakklátur og líst mjög vel á þetta," sagði Kristófer Ingi að lokum.
Athugasemdir